Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd; Erling Ólafsson

Samhliða fjölgun og aukinni dreifingu á lúsmýi um landið síðustu ár hefur eftirspurn eftir fæliefnum gegn skordýrum aukist. Hafa þau sem innihalda virka efnið DEET verið sérlega vinsæl í baráttunni við bitvarginn.
Umhverfisstofnun fer með eftirlit með fæliefnum og hefur nýlega lokið eftirlitsverkefni þar sem lögð var sérstök áhersla á að skoða fæliefni sem innihalda virku efnin DEET og/eða etýlbútýlasetýlamínóprópíónat en þau hafa bæði verið samþykkt í áhættumati til notkunar í fæliefnum.  Vörur sem innihalda þessi virku efni þurfa markaðsleyfi svo leyfilegt sé að bjóða þær fram á markaði nema að þær innihaldi einnig annað virkt efni sem er enn í áhættumati. Markmið verkefnisins var því að athuga hvort að vörurnar sem boðnar voru fram á markaði væru með markaðsleyfi.

Farið var í eftirlit hjá 19 fyrirtækjum, þ.e. 12 lyfjaverslunum, 3 byggingavöruverslunum og 4 verslunum með veiðivörur. Aðeins fundust fjórar vörutegundir sem féllu undir umfang eftirlitsins, þ.e. samtals 17 vörur í 12 verslunum. Allar vörurnar innihéldu virka efnið DEET og engin þeirra reyndist með frávik.


Vörutegundir Mygga eru allar með markaðsleyfi en varan Moustidose Spray Répulsif Anti-Moustiques inniheldur virkt efni sem er enn í áhættumati og því þarf varan ekki markaðsleyfi um sinn.

Niðurstöður eftirlitsins gefa til kynna að innflytjendur fæliefna gegn skordýrum séu meðvitaðir um að bjóða aðeins fram á markaði vörur sem uppfylla skilyrði skv. reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur.

Samantekt um eftirlitsverkefnið