Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur uppfært losunarstuðla sem mælst er til að séu notaðir til að reikna út losun frá helstu uppsprettum gróðurhúsalofttegunda (GHL) í rekstri fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans. Ísland hefur sett sér skýr markmið í loftslagsmálum og er mikilvægt að allir leggi sín lóð á vogarskálarnar til að þeim markmiðum sé náð. Almenningur kallar auk þess í síauknum mæli eftir upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda vegna reksturs fyrirtækja og stofnana.

Losunarstuðlarnir voru fyrst birtir í upphafi þessa árs en í 2. útgáfu sem hér kemur fyrir sjónir landsmanna hefur losunarstuðlum fyrir þotueldsneyti, flugvélabensín, svartolíu, lífdísel, metan, LPG gas og kælimiðla verið bætt við.

Einnig hafa losunarstuðlar fyrir vegasamgöngur (losun/ekinn km) verið uppfærðir ásamt losunarstuðli fyrir úrgang til urðunar. Stefnt er að uppfærslu einu sinni á ári héðan í frá í samræmi við nýjustu Landsskýrslu um losun GHL hverju sinni.

Markmiðið með útgáfu losunarstuðlanna er að aðstoða sem flesta til að fá haldbæra mynd af losun eigin reksturs eða annarra athafna.  Auk þess gefa stuðlarnir rekstraraðilum tækifæri til að tryggja að upplýsingar um þeirra losun sé í samræmi við þær reiknireglur sem gilda í Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda, sem íslensk stjórnvöld taka saman og skila til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).  Losunarstuðlana og helstu upplýsingar um þá má finna hér.