Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Á hverju ári berast um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanausta í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Úrgangur í fráveitu er vandamál um allt land. Auk þess að skaða umhverfið og þyngja rekstur fráveitukerfa, hleypur kostnaður sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar rusls í fráveitum á tugum milljóna króna á ári.

Vegna ástandsins sem nú ríkir í samfélaginu eyða fleiri auknum tíma heima hjá sér, þar með eykst úrgangsálag á fráveitukerfin. Stærsta vandamálið eru blautþurrkur og/eða sótthreinsiklútar, auk smokka, tannþráðar og eyrnapinna.

Augljóslega þarf að skerpa á skilaboðunum um hvað má fara í klósettið og hvað ekki. Verkefnið „bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið“ er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Samorku í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu. Verkefninu verður hleypt af stokkunum eftir tvo daga, fimmtudaginn 19. nóvember, en þá er alþjóðlegur dagur klósettsins.