Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá mörgum að dagur íslenskrar tungu fór fram í vikunni með pomp og prakt. Dagurinn er kenndur við Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðing, sem eins og margir vita fæddist á Hrauni í Öxnadal.

Hraun í Öxnadal var friðlýst sem fólkvangur á 200 ára ártíð Jónasar, árið 2007. Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur og rithöfundur var meðal þeirra sem barðist fyrir friðlýsingu Hrauns og hlúði hann að svæðinu allt þar til hann lést árið 2019. Það gerði hann í samstarfi við Hörgársveit og Hraunsfélagið, sem er eigandi jarðarinnar.

Fólkvanginum er ætlað að auðvelda almenningi aðgengi að náttúru og tengdum menningarminjum til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Verndargildi Hrauns í Öxnadal byggir á fjölbreytni landslags og náttúrufars auk þess sem þarna eru minjar um horfna búskaparhætti.

Á Hrauni er minningu Jónasar Hallgrímssonar haldið vel á lofti. Í gömlu bæjarhúsunum hefur verið sett upp aðstaða og lítil sýning um skáldið. Skammt frá Hrauni er svo Jónasarlundur við þjóðveginn, utan fólkvangsins. Náttúrufar Hrauns er ekki síður stórbrotið en sagan. Bærinn stendur innan um hina fjölmörgu hóla sem orðið hafa til við gríðarlegt berghlaup eftir jökultíma. Þar yfir gnæfa hinir einstöku Hraundrangar sem greipst hafa í huga flestra þeirra sem um Öxnadalinn fara en í skjóli undir tindunum er Hraunsvatn, lítið fjallavatn með hrikalega umgjörð og fjölbreytt lífríki.

Það er við hæfi að minnast Jónasar og náttúru staðarins með ljóði Hannesar Hafstein um Hraun í Öxnadal.

Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla"
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.

Rétt við háa hóla,
hraunastalli undir,
þar sem fögur fjóla
fegrar sléttar grundir,
blasir bær við hvammi
bjargarskriðum háður.
Þar til fjalla frammi
fæddist Jónas áður.

Brosir laut og leiti,
ljómar fjall og hjalli.
Lækur vætu veitir,
vökvast bakka halli.
Geislar sumarsólar
silungsána gylla
þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla.

Sjá nánar hér.

Mynd: Linda Ársælsdóttir/Umhverfisstofnun