Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Úrgangur í fráveitu er vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári.

Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.

Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni frítt fyrir alla sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Hvetjum alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.

Á vefsíðunni www.klosettvinir.is finnið þið efni sem þið getið notað á vefsíður ykkar, gert frétt með myndefni, deilt myndböndum á samfélagsmiðlum, hlustað á lag á Spotify, hengt upp veggspjöld í sundlauginni og íþróttahúsinu. Allt sem þarf til að fræða fólk um að bara piss, kúkur og klósettpappír eiga heima í klósettinu!

Í dag er alþjóðlegi klósettdagurinn og upplagt að minna fólk á hvað má fara í klósettið. 

Verum með!