Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar og Hornafjarðar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir fólkvanginn Ósland. 

Drög hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

Fólkvangurinn Ósland var friðlýstur árið 1982, friðlýsingin var endurskoðuð árið 2011 með auglýsingu nr. 264/2011.

Ósland er eyja með landbrú við Höfn í Hornafirði. Þar finnast leirur með miklu fuglalífi. Í Óslandi má sjá basaltafsteypur af trjám sem þar hafa lent í hrauni.

Stærð fólkvangsins er 16,9 ha.

Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja svæði til útivistar og útikennslu í náttúrufræðum í sveitarfélaginu Hornafirði. Einnig er markmiðið að tryggja verndun sérstakra jarðmyndanna og fjölbreytts fuglalífs.

Stjórnunar- og verndaráætlun er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við rétthafa lands og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og auka vernd þess.

Markmiðið með gerðinni er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættanna og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins í sem bestri sátt.

 

Áætlunin gildir til 10 ára. Með henni fylgir aðgerðaáætlun sveitarfélagsins.

Drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ósland má sjá hér.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 12. janúar 2021. 

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is, eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.