Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Nú hafa allar verslanir Krónunnar hlotið Svansvottun. Kröfur Svansins fyrir dagvöruverslanir ná yfir umhverfisþætti í rekstri verslana, svo sem matarsóun og flokkun úrgangs, orkunotkun, og framboð lífrænna og umhverfisvottaðra vara.

Í lok árs 2019 hlaut Krónan Svansvottun á verslunum sínum við Akrabraut og Rofabæ og voru það fyrstu verslanirnar á Íslandi sem hlotið hafa Svansvottun. Nú ári síðar er lokamarkmiðinu náð með vottun allrar keðjunnar.

Eitt þeirra umhverfismarkmiða sem Krónan sétti sér fyrir árið 2020 var að fá Svansvottun fyrir allar verslanir okkar. Þetta er því stórt skref sem varðar þá samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækið leggur  áherslu á og stendur fyrir. Svanvottun er ekki eitthvað sem þú færð bara einu sinni, heldur þarf að halda viðmiðum til að missa hana ekki. Við hjá Krónunni setjum okkur því áframhaldandi markmið á þessu sviði og fögnum þessum áfanga,“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.

Svansvottun er opinbert og vel þekkt umhverfismerki á Norðurlöndunum sem er meðal annars með það markmið að lágmarka umhverfisleg áhrif á neyslu og framleiðslu vara.

Svansvottun Krónunnar þýðir að:

  • 20% af öllum rekstrarvörum sem Krónan selur eru umhverfisvottaðar (vottaðar með Svaninum eða Evrópublóminu)
  • 4% af matar- og drykkjarvöru eru lífrænt vottaðar
  • Markviss áhersla er lögð á að sporna gegn matarsóun og flokkun er til fyrirmyndar
  • Virk orkustefna sem dregur úr orkunotkun
  • Krónan notar einungis umhverfisvottaðar ræsti- og hreinlætisvörur fyrir eigin þrif og rekstur

Í þeim mælanlegu kröfum sem Svanurinn setur fram stóð Krónan sig í öllum tilfellum töluvert betur en mælst var til um. Til dæmis var sýnilegur góður árangur þegar kom að hlutfalli umhverfisvottaðra og lífrænt vottaðra vara og magn blandaðs úrgangs miðað við veltu,“ segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur Svansins hjá Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun og starfsfólk Svansins óska Krónunni innilega til hamingju með metnaðarfullt umhverfisstarf og hlakka til áframhaldandi samstarfs. Það er mjög verðmætt fyrir Svaninn að eiga sterkan samstarfsaðila sem er bæði nálægt neytendum og kemur við sögu í daglegu lífi einstaklinga.