Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Þann 31. desember 2020 lýkur aðlögunartímabilinu vegna útgöngu Bretlands úr ESB sem gerir það að verkum að landið fær stöðu þriðja ríkis gagnvart ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu frá 1. janúar 2021, verði ekki samið um annað fyrir þann tíma. Þetta þýðir að auknar skyldur geta fallið á aðila hér á landi sem framleiða eða markaðssetja vörur sem falla undir ákvæði í efnalögum og takmörkun verður á heimildum um flutning úrgangs til Bretlands. 

Áhrifin af Brexit á vörur sem falla undir ákvæði efnalöggjafarinnar koma þó ekki öll í ljós um næstu áramót vegna þess að vörur sem komu á markað á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir 1. janúar 2021 verða áfram löglegar á markaði þar til þær berast endanlegum notanda. Þannig getur komið upp sú staða varðandi tvær alveg sambærilegar vörur að önnur sé lögleg á markaði en hin ekki, allt eftir því hvort markaðsetningin átti sér stað fyrir eða eftir næstu áramót.

Gera má ráð fyrir að framleiðsluumhverfi í Bretlandi verði óbreytt áfram og því ættu ekki að verða breytingar sem hafa áhrif á öryggi vöru gagnvart notendum eða umhverfinu, þrátt fyrir Brexit. Umhverfisstofnun fylgist með því að kröfur efnalöggjafarinnar séu uppfylltar, svo sem varðandi flokkun, merkingu, umbúðir, öryggisblöð og markaðsleyfi og mun leggja sig fram við að útskýra og leiðbeina um reglurnar.  Þá mun stofnunin gæta meðalhófs og sanngirni í eftirliti gagnvart vörum sem hafa óljósa stöðu á markaði vegna Brexit. 

Umhverfisstofnun hefur tekið saman yfirlit um áhrif Brexit á efnamál og í einstökum málaflokkum sem falla undir ákvæði í efnalögum sem hægt að kynna sér á vefsetri stofnunarinnar. Þar er jafnframt birtur listi yfir kafla í tollskrá sem innihalda tollflokka fyrir vörur sem falla undir ákvæði í efnalögum.

Hvað varðar úrgang þá verður sú breyting að ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu verður óheimilt að flytja til Bretlands úrgang til förgunar eða blandaðan heimilis- og rekstrarúrgang til endurvinnslu. Að öðru leyti gilda áfram sömu reglur þar sem Bretland er aðili að Basel-samningi um flutning á úrgangi milli landa og aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Kynntu þér málið nánar á heimasíðu Framkvæmdarstjórnar Evrópu um úrgangsmál  og vef  Umhverfisstofnunar.
 
Umhverfisstofnun hvetur aðila til að kynna sér vel skyldur sínar gagnvart reglum um efni og úrgang sem kunna að virkjast vegna útgöngu Bretlands úr ESB.