Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út Stöðuskýrslu um fráveitumál á Íslandi og byggir hún á gögnum frá árinu 2018. Heilbrigðisnefndir um allt land taka saman upplýsingar um stöðu skólpmála í sínu umdæmi og skila til Umhverfisstofnunar sem tekur niðurstöðurnar saman í sameiginlega stöðuskýrslu fyrir landið. 

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að lítið hefur breyst í stöðu fráveitumála hjá sveitarfélögum síðan árið 2014. Þá (2014) voru um 74% íbúa með einhverskonar hreinsun (grófhreinsun, eins þreps hreinsun, tveggja þrepa og ítarlega hreinsun) en 76% árið 2018. Breytingar í áttina að því að sveitarfélög uppfylli kröfur um hreinsun skólps eru því afar hægar. Einnig vantaði upp á eftirlit með árangri hreinsunar og ástandi viðtaka í samræmi við kröfur reglugerðarinnar. Þá er tími kominn til endurskoðunar á skilgreiningum fyrir síður viðkvæma viðtaka. 

Fjárstuðningur ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda, sem gert er ráð fyrir að numið geti allt að 20% af heildarkostnaði við þær, mun vonandi verða til þess að fleiri sveitarfélög nýta tækifærið til að bæta hreinsun fráveituvatns. Auk þess verður unnið að því í tengslum við vatnaáætlun að sveitarfélög vinni að úrbótum á hreinsun fráveituvatns og uppfylli ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp.

Áhersla á endurnýtingu á seyru er að aukast en um það bil helmingur af þeirri seyru sem safnaðist árið 2018 var endurnýttur. 

Stöðuskýrsla fráveitumála 2018