Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Á Íslandi er miklu magni af flugeldum skotið upp um hver áramót. Loftgæði verða oft á tíðum slæm og hafa neikvæð áhrif á viðkvæma hópa t.a.m. börn, aldraða og fólk sem er veikt fyrir.
Mengunin ræðst af magni flugelda og veðri en veður er ráðandi þáttur í hvort mengunin safnist upp eða ekki. Ef veður er stillt og úrkomulaust geta loftgæði orðið fremur slæm, Margir muna eftir áramótunum 2016-2017 og 2017-2018 þegar slíkt magn af svifryki safnaðist upp yfir höfuðborginni að erfitt var orðið að sjá litadýrðina. Í bæði skiptin var úrkomulaust og veðurstilla sem leiddi til þess að allt svifrykið sem myndaðist við sprengingarnar náði að svífa lengi um andrúmsloftið. Þetta leiddi til þess að klukkustundarstyrkur svifryks fór yfir 2000 µg/m3 eftir miðnætti árið 2017 og yfir 3500 µg/m3 árið 2018 en heilsuverndarmörkin eru 50 µg/m3.

Til viðmiðunar má nefna að sólarhringsmeðaltal svifryks yfir hvert ár er yfirleitt undir 20µg/m3 á höfuðborgarsvæðinu. Á mynd 1 má sjá mælingar á svifryki á mælistöðinni í Dalsmára síðustu fjögur áramót í klukkustundar upplausn. 

Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir og því er mikilvægt að minnka verulega magn flugelda sem skotið er upp um áramót þar sem þeim fylgir ávallt mikið svifryk. Auk neikvæðra áhrifa svifryks á menn og dýr, geta verið margskonar önnur efni í flugeldum. Þar má nefna þungmálma á borð við blý, kopar og sink.

Í skýrslu Umhverfisstofnunar má sjá efnagreiningar sem gerðar voru á svifryki áramótin 2018-2019.  

Umhverfisstofnun hvetur fólk til að vera vel upplýst um áramótin, stilla flugeldanotkun í hóf og vernda þannig viðkvæma hópa. Vert er að hafa í huga að viðkæmir einstaklingar eru mögulega fleiri í ár vegna Covid19. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæði.is. 

Mynd 1: Mælingar Dalsmára 2017 til miðs árs 2020, klukkustundar meðaltöl. Toppar vegna svifryks á áramótum skera sig vel út á myndinni.