Stök frétt

Heimilið okkar er sá staður þar sem við verjum mestum tíma ævinnar og þess vegna viljum við passa uppá að umhverfið inni á því sé heilsusamlegt þar á meðal að við séum ekki í snertingu við varasöm efni sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu okkar. Því miður er þekkt að á heimilum finnast svokölluð þrávirk lífræn mengunarefni sem til dæmis loða við ryk og vert er að hafa áhyggjur af.

Þrávirk lífræn mengunarefni eru stöðugar sameindir sem brotna hægt eða alls ekki niður í náttúrunni og hafa þann eiginleika að geta ferðast langar vegalengdir. Þau safnast upp í lífverum yfir tíma og magnast upp í fæðukeðjunni og því er óæskilegt að slík efni séu í miklu magni í okkar nánasta umhverfi.

Til þess að kanna útbreiðslu þrávirkra lífrænna efna í okkar daglega umhverfi og áhættu af þeirra völdum gagnvart fólki lét Umhverfisstofnun gera efnagreiningar á sýnum sem safnað var úr ryksugupokum frá sjö heimilum hér á landi. Ung börn voru á öllum heimilinum og gæludýr á fjórum þeirra. 

Lögð var áhersla á að skima fyrir efnasamböndum sem grunuð eru um að valda skaða á þroska og líkaminn getur mögulega tekið upp og geymt í vefjum. Því var skimað fyrir efnum sem teljast til þalata, sem notuð eru sem mýkingarefni í plastvörum; PFAS efnum sem finna má í vörum sem hrinda frá sér vatni og óhreinindum; bisfenóli A, sem er notað plastframleiðslu til að kalla fram ákveðna eiginleika í vörum og eldtefjandi efnum, sem til dæmis má finna í raftækjum og húsgögnum.

Af þeim 35 efnum sem skimað var fyrir í verkefninu mældust sjö þeirra yfir greiningarmörkum á öllum heimilunum, en það voru fimm þalöt, eitt PFAS efni og bisfenól A. Önnur efni fundust í færri tilvikum eða alls ekki, þar á meðal mörg PFAS efni. Þó svo að mörg efnanna sem skimað var fyrir í þessari rannsókn reyndust vera undir greiningarmörkum leiðir hún engu að síður í ljóst að þrávirk lífræn efni eru til staðar inni á heimilum okkar og sum jafnvel í nokkrum mæli. 

Besta leiðin til að losa sig við þrávirk lífræn efni af heimilinu er að lofta reglulega vel út og þá er mikilvægt að fjarlægja ryk af gólfum, einkum á heimilum þar sem ungbörn eru til staðar. Við getum líka lagt okkar að mörkum með því að draga almennt úr neyslu, forðast að kaupa vörur úr plasti og temja okkur efnalæsi til að finna betri valkosti.

Skýrsla með nánari umfjöllun um verkefnið.