Stök frétt

Undanfarið hefur samstarfshópur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland Svarfdæla. 

Drög að áætluninni eru hér með lögð fram til kynningar. Í áætluninni er lögð fram stefnumótun til 10 ára, ásamt hlaupandi aðgerðaáætlun til þriggja ára.

Friðland Svarfdæla var friðlýst árið 1972 fyrir tilstuðlan bænda í Svarfaðardal til verndar lífríki og landslagi friðlandsins. Votlendi einkennir friðlandið og er svæðið mikilvægt búsvæði ýmissa votlendisfugla en talið er að rúmlega 35 fuglategundir verpi innan friðlandsins, bæði votlendis-, sjó- og mófuglar. Svæðið er einnig vinsælt til útivistar og fræðslu.

Stjórnunar- og verndaráætlun er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við rétthafa lands og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og auka vernd þess.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 26. mars 2021. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Nánari upplýsingar má finna hér: Friðland Svarfdæla