Stök frétt

Laugahringur - gönguleið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra tilkynnti í gær um úthlutun fjármuna úr Landsáætlun til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021. Heildarfjárframlag að þessu sinni hljóðar upp á 764 milljónir króna og af því var Umhverfisstofnun úthlutað 331 m.kr. fyrir 18 náttúruverndarsvæði sem eru í umsjón stofnunarinnar. Stærsta einstaka úthlutunin í ár fer til nýlegs friðlýsts svæðis við Geysi í Haukadal og lýtur að uppbyggingu gönguleiða um svæðið.

Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum góðum verkefnum víða um land og nefndi ráðherra í ræðu sinni tvö vel heppnuð verkefni sem unnin voru í Friðlandi að Fjallabaki síðastliðið ár. Um er að ræða annars vegar göngustíg sem liggur að Rauðafossi, sem er áfangastaður innan friðlandsins, sem hefur á fáum árum orðið vinsæll viðkomustaður. Af þeim sökum var mikilvægt að bregðast við ágangi ferðamanna um svæðið og gera viðunandi göngustíg að fossinum til að koma í veg fyrir gróðurskemmdir. Hins vegar er um að ræða verkefni á svokölluðum Laugahring sem er vinsælasta gönguleiðin í friðlandinu. Það verkefni hefur verið í gangi um nokkurra ára skeið þar sem unnið er að uppbygginu gönguleiðar um Laugahraun og Grænagil með það að markmiði að bæta aðgengi, auka upplifun gesta og vernda viðkvæmar jarðminjar og gróður. Ráðherra nefndi í ræðu sinni að þar hafi verið vandað til verka og segja mætti að göngustígurinn væri listaverk.

Það er kúnst að byggja upp innviði eins og göngustíga og hafa þá þannig úr garði gerða að þeir falli að náttúru svæðisins en stingi ekki í stúf og hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruverndarsvæða. Umhverfisstofnun leggur mikla áherslu á að öll innviðauppbygging á náttúruverndarsvæðum sé fagmannlega unnin og það stuðli að bættri náttúruvernd, aðgengi og upplifun gesta.  

Hér má sjá upptöku af úthlutun og nánari upplýsingar um verkefnin https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/03/09/Rumum-1-5-milljardi-veitt-til-innvida-og-natturuverndar-a-ferdamannastodum-/

Laugahringur - gönguleið

 

Gönguleiðin að Rauðafossi

Gönguleiðin að Rauðafossi

Myndir með frétt: Hákon Ásgeirsson