Stök frétt

Mynd: Ael Kermarec

Umhverfisstofnun vill koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri í tengslum við eldgos í Geldingadölum.

Síðustu vikur hafa einkennst af hlýju veðri og þíðu og er jörð víða viðkvæm fyrir ágangi og umferð.

Nú þegar hafa margir lagt leið sína að gosstöðvum til að upplifa eldsumbrotin og hafa flestir farið sem leið liggur frá Grindavík meðfram Suðurstrandavegi og þaðan í norðaustur að gosstöðvum eða frá Grindavíkurvegi í austur að Fagradalsfjalli. Jarðvegur og gróður á þessu svæði er víða mjög viðkvæmur fyrir umferð og beinir Umhverfisstofnun því til göngufólks að vanda vel leiðarval til að koma í veg fyrir óþarfa rask á náttúru svæðisins.

Notið gönguleiðir sem fyrir eru og forðist rask á mosa og öðrum viðkvæmum gróðri. Vegir og slóðar eru einnig víða viðkvæmir í þíðu og getur umferð auðveldlega valdið skemmdum á þeim.

Umhverfisstofnun bendir á að allur akstur vélknúinna ökutækja utan vega er bannaður og að öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.