Stök frétt

Í dag, 23. mars 2021 undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, endurskoðaða auglýsingu að friðlýsingu Varmárósa í Mosfellsbæ.

Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980. Friðlýsingin var endurskoðuð árið 2012 og aftur nú.  

Með endurskoðun friðlýsingarinnar hefur svæðið verið stækkað í því skyni að það nái yfir þekkta vaxtarstaði fitjasefs, en Varmárósar eru annar tveggja fundarstaða plöntunnar á Íslandi. Auk þess eru á svæðinu vistgerðir sem hafa hátt verndargildi sem eru mikilvægar fyrir bæði fuglategundir og sjaldgæfar plöntutegundir. Svæðið er einnig hluti af stærra svæði í Leiruvogi sem er alþjóðlega mikilvægt fyrir fuglategundirnar margæs og sendling.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og viðhalda fitjasefi og búsvæði þess sem og náttúrulegu ástandi votlendis svæðisins ásamt sérstöku gróðurfari sem þar er og búsvæði fyrir fugla. Einnig er markmið með friðlýsingunni að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins með áherslu á plöntuna fitjasef, búsvæði hennar og þær vistgerðir votlendis, strandlendis og fjöruvistgerða sem er að finna á svæðinu. Ennfremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslugildi svæðisins.

Gert er ráð fyrir að gerður verið umsjónarsamningur við Mosfellsbæ um umsjón og rekstur friðlandsins.

Umhverfisstofnun vill þakka fulltrúum Mosfellsbæjar fyrir ánægjulegt samstarf við undirbúning friðlýsingarinnar.