Stök frétt

Mynd: John Cameron, Unsplash


Umhverfisstofnun sinnir eftirliti sem miðar að því að auka söfnun og endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum, rafhlöðum og rafgeymum. Markmið eftirlitsins er að fylgja eftir banni á tilteknum skaðlegum efnum í rafhlöðum og rafgeymum og sjá til þess að upplýsingagjöf fyrirtækja til viðskiptavina sé fullnægjandi.

Í eftirliti undanfarinna ára hefur algengasta frávikið verið að fyrirtæki upplýsa neytendur ekki með fullnægjandi hætti um um söfnun og skil á úr sér gegnum rafhlöðum, rafgeymum og raf- og rafeindatækjum. Árið 2020 ákvað Umhverfisstofun því að útbúa spjöld með þessum upplýsingum og dreifa þeim meðal eftirlitsþega í tengslum við eftirlit. Upplýsingarnar og spjöldin eru öllum aðgengileg og má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofununar undir miðlun fyrir rafhlöður og rafgeyma og einnig miðlun fyrir raf- og rafeindatæki.

Árið 2020 var farið í fyrirvaralaus eftirlit til innflytjenda rafhlaðna, rafgeyma og raf- og rafeindatækja, sem höfðu ekki fengið eftirlitsheimsókn áður. Að frátöldum athugasemdum um upplýsingaskyldu, greindust önnur frávik hjá fimm eftirlitsþegum af þeim 30 aðilum sem heimsóttir voru árið 2020. Einn aðili þurfti að gera úrbætur hjá sér varðandi móttöku á notuðum rafhlöðum og fjórir aðilar þurfu að gera úrbætur þar sem yfirstrikaða tunnumerkið vantaði á vöru (sjá mynd). Engar athugasemdir voru að þessu sinni varðandi upplýsingar um efnainnihald rafhlaða. 

Frávikum í eftirliti hefur fækkað verulega á undanförnum árum og frá árinu 2015 fækkaði frávikum úr 64% tilvika í 5% árið 2020. Flest frávikin vörðuðu merkingar á yfirstrikuðu tunnumerkinu og upplýsingar til kaupenda. Þessi þróun bendir til þess að framleiðendur og innflytjendur hafi á undanförnum fimm árum verulega bætt úr upplýsingaskyldu sinni varðandi flokkun, skil og merkingar á raf- og rafeindtatækjum og rafhlöðum/ -geymum. Því má draga þá ályktun að verulegur ávinningur hafi verið af virku eftirliti stofnunarinnar á síðustu árum. 

Umhverfisstofnun hefur jafnframt gefið út nýja eftirlitsáætlun með rafhlöðum og rafgeymum og raf- og rafeindatækjaúrgangi fyrir árin 2021 til 2023. Áætlunin er mikilvægt skref í að tryggja rétta meðhöndlun á þeim úrgangi sem fellur til. Markmið eftirlitsins er einkum að að hækka söfnunarhlutfall rafhlaða, rafgeyma og raf- og rafeindatækja og að tryggja ábyrga meðhöndlun úrgangs úr þessum vörum. 

Eftirlit Umhverfisstofnunar byggir á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, reglugerð nr. 1020/2011 um rafhlöður og rafgeyma og reglugerð nr. 1061/2018 um raf- og rafeindatækjaúrgang. Nánari niðurstöður eftirlits og eftirlitsáætlanir með rafhlöðum og rafgeymum og  raf- og rafeindatækjaúrgangi má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofunar, en frekari upplýsingar má fá hjá teymi græns samfélags.