Stök frétt

Árið 2020 framkvæmdu starfsmenn Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum ástandsmat á 146 áfangastöðum ferðamanna innan friðlýstra svæða á Íslandi. Í tilfellum þar sem svæðin eru stór hafa verið skilgreindir fleiri en einn áfangastaður innan hins friðlýsta svæðis. 

Helstu niðurstöður ástandsmats fyrir árið 2020 eru að ástand hefur batnað á mörgum áfangastöðum. Það sést best með því að skoða græna lista matsins en þar er að finna þá staði sem standast vel álag af völdum gesta og fá yfir 8 í einkunn. Milli ára tvöfaldaðist nánast fjöldi þessara áfangastaða, fóru úr 34 í 60 áfangastaði. Þetta er ekki síst ánægjulegt í ljósi þess að grænir áfangastaðir eru nú orðnir 41% metinna áfangastaða. 

Skýringin á þessari breytingu er ekki síst aukin innviðauppbygging samfara aukinni landvörslu og þar með stýringu, sem gerir svæðunum kleift að taka á móti miklum fjölda gesta án þess að svæðið verði fyrir álagi en líka sú staðreynd að færri gestir heimsóttu hluta svæðanna. Ástand áfangastaða innan þjóðgarðanna þriggja sýnir þetta skýrt en þar hefur mikil innviðauppbygging átt sér stað og eru nú allir metnir áfangastaðir þeirra, utan tveggja, á grænum lista.  

Grænir áfangastaðir:

Arnarstapi 
Álfaborg 
Innan Bláfjallafólkvangs: Þríhnjúkagígar 
Búðahraun 
Dimmuborgir 
Dynjandi 
Dyrhólaey (háey) 
Dverghamrar 
Eldborg 
Grábrók 
Goðafoss 
Innan Hornstranda: Horn, Höfn, Látrar og Veiðileysufjörður 
Hrútey 
Hraun 
Hraunfossar 
Húsafell 
Ingólfshöfði 
Kattarauga 
Kirkjugólf 
Klasar 
  Krossanesborgir 
Ósland 
Seljahjallagil 
Skógarfoss (láglendi) 
Skútustaðir 
Ströndin Stapar - Hellnar 
Surtarbrandsgil 
Teigarhorn 
Innan Vatnsfjarðar:
Hörgsnes, Vatnsdalur og Þingmannaá 
Innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökull:
Djúpalón, Lóndrangar, Malarrif, Saxhóll, Skarðsvík, Skálasnagi, Svalþúfa og Öndverðanes
Varmárósar 
Innan Vatnajökulsþjóðgarðs: 
Askja, Drakagil, Eldgjá, 
Fjallsárlón, Holuhraun, 
Hvannalindir, Laki, 
Langisjór, Sel, 
Skaftafell tjaldsvæði, 
Skaftafell þjónustumiðstöð, 
Snæfell gönguleið, 
Svartifoss, Tjarnargígur 

Innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum: Almannagjá, Hakið og Öxarárfoss
  
 

Ef litið er til áfangastaða sem eru annars vegar í hættu eða eiga í hættu á að missa verndargildi sitt þá eiga þeir staðir það sameiginlegt sem koma nýir inn á þessa lista, að það er verið að meta þá í fyrsta skipti. 

Báðir rauðlistuðu staðirnir frá fyrra ári hafa flust yfir á appelsínugula listann en það voru annars vegar Rauðifoss innan Friðlands að Fjallabaki og hins vegar Dettifoss að austanverðu. Við Rauðafoss var unnið að lagfæringum á svæðinu, nýr göngustígur gerður upp að fossinum og villustígum lokað sem og akstursför utan vega afmáð. Við Dettifoss voru engar framkvæmdir en þar sem fjöldi gesta á svæðinu var eingöngu um þriðjungur fjöldans í hefðbundnu ári náði svæðið að jafna sig.  

Nýju rauðu staðirnir eru eins og fram hefur komið, metnir hér í fyrsta skiptið. Stútur og Suðurnámur innan Friðlands að Fjallabaki eru svæði sem eru í viðkvæmri náttúru og þarfnast betri innviða. Við Stút þarf að laga aðkomu að svæðinu og loka villustígum en við Suðurnámur er göngustígurinn mjög illa farinn af jarðvegsrofi og traðki utan göngustígs. Þar þarf að fara í aðkallandi lagfæringar á stígnum. Við Námuveg innan Vatnajökulsþjóðgarðs vantar nauðsynlega innviði er sinnt geta þeim fjölda gesta sem þangað koma. 


Áfangastaðir í hættu:

Innan Friðlands að Fjallabaki: Stútur og Suðurnámur 
Innan Vatnajökulsþjóðgarðs: Námuvegu
Appelsínugulir áfangastaðir 

Ásfjall
Innan Bláfjallafólkvangs: Skíðavæði 
Bringur 
Dettifoss (að austanverðu) 
Innan Friðlands að Fjallabaki:
Landmannalaugar, Rauðifoss
og Vondugiljaaurar 

Hleinar 
Hlið 
Kerlingafjöll (Hveradalir) 
Rauðhólar 
Innan Reykjanesfólkvangs:
Helgafell, Leiðarendi, Sogin, Stapar og
fjaran við Kleifarvatn, Vigdísarvellir og Vigdísarvallaleið.
 
Tungufoss 
Innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum:
Silfra 

Breytt ferðahegðun sem tengja má við Covid-19 hafði áhrif á ástand áfangastaða, má þar nefna að fjölsóttustu ferðamannastaðirnir fengu aðeins brot af þeim gestum sem sækja svæðin heim í venjulegu ári. Það skilaði sér í því að innviðir voru nægjanlegir, ástand gróðurs við gönguleiðir batnaði o.s. frv. Á sama tíma varð mikil sprenging í útivistaráhuga landans og þar með mikið álag á svæðum nálægt þéttbýli, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hluti þessara svæða lækka í einkunn vegna þess að þau voru illa í stakk búin fyrir þessar skjótu breytingar. Innviðir dugðu ekki þeim fjölda sem allt í einu var kominn á staðinn, göngustígar önnuðu illa fjölda göngumanna o.s.frv.   

Frekari upplýsingar um ástanda áfangastaða innan friðlýstra svæða má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Skýrslan: Ástandsmat ferðamannastaða innan friðlýstra svæða 2020