Stök frétt

Um hádegisbil á laugardag fékk Umhverfisstofnun tilkynningu um að mengun væri sýnileg í Dynjandisvogi í Arnarfirði.
Um var að ræða sýnilega olíuslikju í firðinum sem breiddi úr sér um 300 metra út voginn. Uppruni hennar var ekki ljós í fyrstu en kannað var hvort hún tengdist vegagerð á svæðinu.

Þar sem umfang og uppruni mengunarinnar var ekki ljós í fyrstu undirbjó Umhverfisstofnun að flytja mengunarvarnabúnað til Arnarfjarðar með aðstoð Ísafjarðarhafnar en stofnunin tilkynnti einnig um atvikið til Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Vegagerðarinnar og hafna Vesturbyggðar. Eftir frekari eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að mengunin hafði borist frá vinnuvél þar sem glussaslanga hafði farið í sundur. Búið var að gera við tækið en hreinsun á svæðinu hafði ekki farið fram. Þar sem ljóst var að óhappið var við vegagerð á svæðinu fór Umhverfisstofnun fram á að komið yrði fyrir búnaði til að ná upp olíu á staðnum.

Umhverfisstofnun mun fylgjast með framgangi hreinsunarinnar. 

Umhverfisstofnun brýnir fyrir verktökum og öðrum tækjaeigendum að tilkynna alltaf til Neyðarlínunnar ef þeir verða varir við olíu- eða glussaleka frá vinnutækjum og jafnframt að hreinsa strax upp það sem hægt er af olíu á staðnum. Slíkt getur komið í veg fyrir frekari dreifingu mengunar og neikvæð áhrif á umhverfið.