Stök frétt

Mörg okkar bera skartgripi daglega og við eigum ólíkar gerðir skarts, allt frá eyrnalokkum og hálsmenum til armbandsúra og ermahnappa. Flestir þekkja skartgripi sem búnir eru til úr silfri, gulli, hvítagulli og ryðfríu stáli, en færri eru meðvitaðir um efnainnihald ódýrari skartgripa.

Til þess að mögulegt sé að selja skartgripi ódýrt má framleiðslukostnaður ekki vera of hár en þá getur verið freistandi að notast við ódýrari hráefni s.s. nikkel, blý og kadmíum. Þó að þessi efni gefi skartgripum marga eftirsótta eiginleika geta þau verið skaðleg heilsu manna, t.d. getur blý haft áhrif á frjósemi og valdið taugaeiturhrifum, sem getur leitt til námsörðuleika og þroskaraskana.

Magn blýs sem leyfilegt er að hafa í skartgripum er víðsvegar takmarkað og í Evrópu er miðað við 0,05% af heildarþyngd skartsins eða einstakra hluta þess. Til þess að rannsaka magn blýs í ódýru skarti sem boðið er til sölu hér á landi stóð Umhverfisstofnun fyrir eftirliti í sjö verslunum þar sem ein vara var valin af handahófi til efnagreiningar á hverjum stað.
Niðurstöður efnagreininganna leiddu í ljós að allar sjö vörurnar innihéldu blý, en í styrkleika innan leyfilegra marka, þ.e.a.s. minna en 0,05% blýinnihald af heildarþyngd skartsins eða einstökum hlutum þess. Þó að niðurstöðurnar hafi verið jákvæðar var úrtakið lítið og því ekki hægt að fullyrða að almennt sé innihald blýs undir leyfilegum mörkum í ódýru skarti sem boðið er til sölu hér á landi. Einnig ber að hafa í huga að fleiri hættuleg efni getur verið að finna í því, s.s. um nikkel og kadmíum.

Til að minnka líkur á snertingu við þessi efni, sem geta haft skaðleg áhrif á heilsuna, er mikilvægt að vanda valið við kaup á skartgripum og t.d. passa sig á því að velja ekki það ódýrasta sem er í boði. Ávallt skal forðast að setja skartgripi í munn og mikilvægt er að þvo hendur eftir vinnu með föndurvörur við skartgripagerð.

Nánari upplýsingar um eftirlitsverkefnið má nálgast hér: https://ust.is/atvinnulif/efni/efnaeftirlit/eftirlitsverkefni/eftirlitsverkefni-2020/takmarkanir-skv.-reach-efnagreiningar/