Stök frétt

Umhverfisstofnun tók þann 6. maí 2021 ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi Arctic Sea Farm hf. í Dýrafirði. Um er að ræða sjókvíaeldi fyrir allt að 10.000 tonna lífmassa á hverjum tíma en rekstaraðili hefur verið með leyfi fyrir allt að 4.200 tonna eldi í Dýrafirði og er því um aukningu að ræða.
Umhverfisstofnun telur að mengun verði aðallega í formi lífræns úrgangs (bæði í föstu og uppleystu formi) sem frá eldinu muni berast í viðtakann. Að mati stofnunarinnar geta áhrif mengunarinnar verið talsvert neikvæð á eldissvæðum en afturkræf og munu því ekki hafa varanlega áhrif á ástand sjávar og botndýralíf. Eldið er kynslóðaskipt og svæði hvíld á milli kynslóða þannig að botninn jafni sig á milli.

Umhverfisstofnun bendir á að í starfsleyfi stofnunarinnar fyrir starfseminni mun vera ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða, bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði að mati stofnunarinnar og þarfnist frekari hvíldar.

Umhverfisstofnun bárust athugasemdir frá sjö aðilum á auglýsingatíma. Greinargerð fylgir starfsleyfinu þar sem farið er yfir þá þætti er snúa að útgáfu, athugasemdum og umfjöllun um umhverfisþætti er varða útgáfu starfsleyfisins.
Unnið hefur verið með Matvælastofnun að samræmingu við leyfisútgáfu rekstrarleyfis, en leyfin eru afhent rekstraraðila samtímis skv. 3. mgr. 4. gr. b. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Tengd skjöl
Ákvörðun um útgáfu á leyfi
Starfsleyfi Arctic Sea Farm hf. í Dýrafirði
Álit Skipulagsstofnunar Dýrafjörður
Matsskýrsla Arctic Sea Farm hf. Dýrafirði
Vöktunaráætlun, Dýrafjörður
Athugasemdir