Stök frétt

Losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum flugrekendum, sem fellur innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS), dróst saman um 69% milli áranna 2019 og 2020. Skýrist sá samdráttur líklegast af minni flugsamgöngum í heiminum árið 2020 vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Árið 2019 nam losun íslenskra flugrekenda 596.124 tonnum af CO2-ígildum en árið 2020 var losunin 187.687 tonn CO2-ígilda. Er þetta minnsta losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum flugrekendum síðan ETS kerfið var sett á laggirnar árið 2013. 

Hafa ber í huga að þessar losunartölur ná eingöngu til flugs innan evrópska efnahagssvæðisins. Tölurnar ná því ekki yfir annað alþjóðaflug, til dæmis til Ameríku, en losun frá því fellur undir annað kerfi, CORSIA

Einn flugrekandi, Air Iceland Connect, féll undir losunarþröskuld kerfisins og er því undanskilinn í þessum tölum. 

Losun frá flugi innan ETS 2013-2020

64,1% samdráttur í losun frá flugi innan ETS árið 2020

Framkvæmdarstjórn ESB hefur birt lista yfir alla þá flugrekendur og rekstraraðila sem hafa gert upp losun sína. Árið 2020 nam heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá öllum flugrekendum innan ETS kerfisins 24,5 milljónum tonna CO2-ígilda en var 68,14 milljón tonn árið 2019. Heildarlosun frá flugi í Evrópu dróst því saman um tæp 64,1% milli ára. 

Hvað er ETS?

ETS (EU emissions trading System) er evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir. Öll ríki ESB eru þátttakendur í kerfinu auk Íslands, Liechtenstein og Noregs. 

Undir ETS heyrir sá iðnaður sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum, svo sem stóriðja eins og álver, kísilver og járnblendi en líka flugrekstur. Fyrirtæki sem losa mest þurfa að kaupa losunarheimildir þar sem ein losunarheimild jafngildir einu tonni af CO2-ígildum. 

Nái fyrirtæki ekki að draga úr losun geta þau a) keypt færri losunarheimildir eða, ef samdrátturinn er meiri en sem nemur þeim losunarheimildum sem þau fá úthlutað endurgjaldslaust, b) selt þær losunarheimildir sem umfram eru. Þannig á kerfið að virka sem hvatning fyrir flugfélög og stóriðju, t.d. álver að draga úr losun á hagkvæman hátt. 

Frá árinu 2013 hefur ETS kerfið leitt til 35% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda frá orkufrekum iðnaði og flugi. 

Verð á losunarheimildum heldur áfram að hækka og er (í maí 2021) 57 Evrur á tonnið en var 49-50 Evrur dagana í kringum uppgjör.