Stök frétt

Mynd: Daníel Freyr Jónsson

Í sjónvarpsfréttum RÚV sunnudagskvöldið 23. maí var viðtal við starfsmann Umhverfisstofnunar þar sem verið var að fjalla um mengun frá eldgosinu við Fagradalsfjall. Í fréttinni var meðal annars verið að bera saman losun frá eldgosinu við ýmsa losun af mannavöldum. Í undirbúningi fyrir viðtalið óskaði fréttamaður RÚV eftir einhverjum tölulegum samanburði við mannlega losun og starfsmaður Umhverfisstofnunar benti á að áhugavert gæti verið að setja losun eldgossins í samhengi við heildarlosun Íslands. Fyrir viðtalið var starfsmaður Umhverfisstofnunar því búin að taka saman tölur um losun eldgossins og bera það saman við tölur um heildarlosun Íslands. Þegar viðtalið var svo tekið upp spurði fréttamaðurinn hins vegar um samanburð við losun frá umferð, ekki heildarlosun. Það fór hreinlega fram hjá starfsmanni Umhverfisstofnunar að þarna væri verið að spyrja sérstaklega um losun frá umferð, enda var í undirbúningi fyrir viðtalið búið að ræða um að bera losun frá gosinu við heildarlosun Íslands.

Því mátti skilja fréttina þannig að losun gossins á gróðurhúsalofttegundum væri meira en helmingi minni en losun frá umferð. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Mælingar Jarðvísindastofnunar HÍ gefa til kynna að gosið losi allt að 11 þús tonn af CO2 á dag sem er um 4 milljónir tonna, ef það stæði í heilt ár. Árið 2019 var losun frá umferð 952 þúsund tonn sem er minna en fjórðungur af því sem gosið losar. 

Ef hins vegar er borin saman losun gossins við heildarlosun Íslands þá er gosið að losa um 4 milljónir tonna, ef það stæði í heilt ár, en heildarlosun Íslands er um 13,8 milljónir tonna á ári (með landnotkun og skógrækt). Gosið losar því tæp 30% af heildarlosun Íslands og nær því ekki að vera hálfdrættingur á við losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi.

Í stóra samhenginu er rétt að benda á að mannlegar athafnir losa margfalt meira af gróðurhúsalofttegundum heldur en öll eldfjöll á jörðinni. Rannsóknir eru ekki alveg samhljóða en það tekur mannkynið ekki nema einn til fjóra sólarhringa að losa jafnmikið og eldfjöllin losa á einu ári.