Stök frétt

Ný stefna um meðhöndlun úrgangs hefur verið gefin út af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, og nefnist hún Í átt að hringrásarhagkerfi. Stefna umhverfis– og auðlindaráðherra í úrgangsmálum.

Um er að ræða heildarstefnu Íslands í úrgangsmálum næstu 12 árin og er útgáfa hennar mikilvægur áfangi í úrgangsmálum á Íslandi. Stefna um meðhöndlun úrgangs kemur nú út í fyrsta skipti og kemur hún í stað Landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2013–2024, í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um meðhöndlun úrgangs árið 2014. Um leið tóku svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs við hlutverki Landsáætlunar.

Meginmarkmið stefnunnar eru:

  • Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs og vinna að kolefnishlutleysi Íslands.
  • Að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu með því að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs.
  • Að úrgangur sem til fellur fái viðeigandi meðhöndlun svo hann skapi ekki hættu fyrir heilbrigði manna og dýra eða valdi skaða á umhverfinu.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar skrifuðu fyrstu drög af stefnunni og komu í framhaldinu að áframhaldandi þróun hennar í samstarfi við ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Stefnan byggir á miklu og góðu samstarfi þessara aðila enda um mikilvægt málefni að ræða þar sem árangur næst aðeins með góðu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og íbúa.
Umhverfisstofnun fagnar því útgáfu stefnunnar og hlakkar til áframhaldandi vinnu innan málaflokksins í takt við hana.

Minna má á að árið 2016 kom út stefna um úrgangsforvarnir sem nefnist Saman gegn sóun og saman mynda þessar tvær stefnur leiðarljós Íslands í bæði úrgangsforvörnum og úrgangsstjórnun til framtíðar. 
Nánari upplýsingar um stefnuna má sjá hér á vefsíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.