Stök frétt

Sunnudaginn 27. júní undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýja reglugerð um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. 

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi á Vesturlandi. Hann var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda til framtíðar stórt og lítt snortið svæði sem hefur að geyma sérstætt landslag, lífríki og jarðminjar, þannig að náttúra svæðisins fái að þróast eftir eigin lögmálum svo sem kostur er. Friðlýsingin miðar jafnframt að því að vernda heildstæð náttúruleg tegunda- og vistkerfi, gróðurfar, jarðmyndanir, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið. Þá miðar friðlýsingin að því að tryggja almenningi aðgang að svæðinu til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Með friðlýsingunni er einnig stuðlað að því að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í nýtingu, stjórnun, framtíðarskipulagningu og rekstri innan þjóðgarðsins.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er 183 km2 að stærð.

Tillaga að nýrri reglugerð fyrir þjóðgarðinn og stækkun hans var unnin af samstarfshóp sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Snæfellsbæjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Undirritunin fór fram í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli að viðstöddum fulltrúum Snæfellsbæjar, Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og fleirum.  

Nánari upplýsingar um þjóðgarðinn má finna hér.