Stök frétt

Mynd: Jason Krieger - Unsplash

Árhrifa COVID-19 gætir í nýju bráðabirgðatölunum

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunar dróst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi saman um 5% milli áranna 2019 og 2020. Ekki er öll hérlend losun á beinni ábyrgð Íslands, en ef einungis er litið til þeirrar losunar nemur samdrátturinn rúmlega 6,5 prósentum milli ára. 

Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam losun á Íslandi árið 2020 4.486 kílótonnum af CO2-ígildum. Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 13% og losun frá kælimiðlum (F-gösum) um 16%. Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst hins vegar um 7% og losun vegna úrgangs um 12%. Þó má gera ráð fyrir að losun vegna umferðar á vegum aukist á ný á þessu ári vegna aukins ferðamannastraums. Má í því sambandi nefna að losun frá alþjóðaflugi dróst saman um 73% og alþjóðasiglingum um 58% í fyrra. Sá samdráttur fellur þó utan skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Bráðabirgðatölurnar ná ekki yfir losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF).

Mynd 1: Losun gróðurhúsalofttegunda (kt CO2 ígildi) á Íslandi (án landnotkunar og skógræktar, alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga)

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum eru meginbreytingar í losun milli 2019 og 2020 eftirfarandi:

  • Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 13%, sem helgast fyrst og fremst af fækkun ferðamanna milli 2019 og 2020.
  • Losun frá kælimiðlum (F-gösum) dróst saman um 16% og er sá samdráttur að mestu vegna minni innflutnings á kælimiðlum.
  • Losun frá landbúnaði dróst saman um 1,5%, að mestu leyti vegna fækkunar sauðfjár.
  • Losun frá málmframleiðslu (EU ETS) dróst saman um 2% og tengist minni framleiðslu 2020.
  • Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst um 7% og er það að nokkru leyti vegna aukinnar hitavatnsframleiðslu úr gasríkum holum.
  • Losun vegna úrgangs jókst um 12% og tengist það minni metansöfnun á urðunarstöðum en árið á undan, sem var metár í metansöfnun.
  • Losun frá alþjóðaflugi dróst saman um 73% og alþjóðasiglingum um 58%. Sá samdráttur fellur þó að mestu leyti utan skuldbindinga í loftslagsmálum, nema flug innan Evrópu sem fellur undir Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS).

Vegasamgöngur, fiskiskip og iðragerjun stærstu losunarþættirnir á beinni ábyrgð Íslands
Þegar litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands (heildarlosun án LULUCF og ETS) dróst hún saman um 6,5% milli áranna 2019-2020, og nam 2.693 kt CO2-ígildum árið 2020. Það ár voru stærstu einstöku losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands vegasamgöngur (31%), fiskiskip (19%) og iðragerjun búfjár (11%). Umfang vegasamgangna í losun Íslands, sem og bráðabirgðagreiningar á eldsneytiskaupum leiða í ljós að samdráttur í losun frá vegasamgöngum helgaðist fyrst og fremst af fækkun ferðamanna milli 2019 og 2020. Tölurnar sýna okkur að til þess að tryggja nauðsynlegan samdrátt í losun frá vegasamgöngum er mikilvægt að styðja virka- og loftslagsvænni ferðamáta bæði hjá Íslendingum en ekki síður meðal erlendra ferðamanna.

Mynd 2: Stærstu losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands árið 2020. Losunarþættir minni en 5% eru undanskildir á þessari mynd.

Með Parísarsáttmálanum hefur Ísland áður skuldbundið sig til að ná 29% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030, miðað við losun ársins 2005. Þess ber að geta að markmið um 29% samdrátt sem fellur undir beina ábyrgð Íslands er tilkomið vegna sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og ESB um að ná 40% samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990, en það markmið hefur verið hækkað í 55% sem krefst endurskoðunar markmiða einstakra hlutaðeigandi ríkja, sem ekki liggur fyrir. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum er losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2020 14% minni en hún var árið 2005.

Mynd 3: Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands 2005-2020 (kt CO2-ígildi)

Losun á beinni ábyrgð Íslands sem fjallað er um hér fyrir ofan er sú losun sem íslensk stjórnvöld munu þurfa að gera upp gagnvart Evrópusambandinu, bæði fyrir annað skuldbindingatímabil Kýótóbókunarinnar (2013-2020) og skuldbindingatímabil Parísarsamkomulagsins (2021-2030). Á tímabili Parísarsamkomulagins mun Evrópusambandið gera upp losun aðildarríkjanna sem og hlutaðeigandi EFTA ríkja, þ.e. Íslands og Noregs í heild gagnvart Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Þá tekur Ísland einnig þátt í þeim aðgerðum Evrópusambandsins sem snúa að samdrætti í losun frá stóriðju í gegnum evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS).

Mikilvægt er að taka fram að tölurnar sem um ræðir eru bráðabirgðaniðurstöður sem Íslandi ber að skila til Evrópusambandsins í júlí ár hvert. Þær geta tekið breytingum áður en endanleg skil til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verða þann 15. apríl 2022. Niðurstöður gefa engu að síður vísbendingu um þróun losunar á Íslandi og sýna að áhrif kórónaveirufaraldursins hafi verið afgerandi varðandi minni losun árið 2020. Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða á grundvelli aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem búist er við að skili árangri á næstu árum. Fleiri aðgerðir eru í mótun, m.a. í sjávarútvegi, landbúnaði og byggingaiðnaði sem munu skipta miklu máli  við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum 
Samkvæmt samanburði á bráðabirgðaniðurstöðum og lokaskilum á síðasta ári skeikaði bráðabirgðaniðurstöðunum aðeins um 1%.