Stök frétt

Alþjóðadagur landvarða er haldinn hátíðlegur um allan heim 31. júlí ár hvert til að styðja við ómetanleg störf landvarða við að vernda villta náttúru og dýralíf sem á undir höggi að sækja allsstaðar í heiminum.

Landvarðadagurinn er fyrst og fremst til að minnast þeirra fjölmörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Alþjóðasamtök landvarða halda utan um fjölda þeirra sem hafa látist og árið 2020 létust að minnsta kosti 120 landverðir við störf sem snúa að verndun náttúru og dýralífs. Flestir þeirra eru frá Afríku og Asíu þar sem landverðir eiga m.a. í stríði við veiðiþjófa og skógarhöggsmenn. Þessi dagur er einnig haldinn hátíðlegur til að fagna störfum landvarða sem leggja sig alla fram við að vernda náttúru- og menningarleg verðmæti heimsins.

Á Íslandi starfa landverðir á náttúruverndarsvæðum og hefur þeim fjölgað á undanförnum árum samhliða fjölgun friðlýstra náttúruverndarsvæða. Í ár starfa hjá Umhverfisstofnun um 60 landverðir, flestir frá vori fram á haust. Landverðir standa fyrst og fremst vörð um náttúru landsins en einnig fræða og upplýsa fólk um hvernig eigi að njóta gæða móður náttúru án þess að raska auðlindum hennar svo næstu kynslóðir fái einnig notið þess.

Landverðir Íslands munu fagna þessum degi víða um land laugardaginn 31. júlí og bjóða gestum náttúruverndarsvæða að kynnast störf landvarða og náttúru og sögu svæðanna. Nánari upplýsingar um viðburðina má nálgast á síðunni Stefnumót við náttúruna.