Stök frétt

Á dögunum tóku í gildi reglur sem banna hinar ýmsu einnota plastvörur, og þar á meðal rör. Margir hafa lýst óánægju sinni með papparörin sem hafa komið í staðinn fyrir plaströr. Með papparörunum getur reynst áskorun að drekka þykka drykki eða sötra kokteil áður en rörið er orðið vatnssósa. Sérstaklega hefur þetta reynst foreldrum gamanlaust, en þeir glíma nú við að fá börnin til að klára úr safafernunni áður en papparörið er dottið í sundur.

Eru plaströrin eina lausnin? 

Það er ljóst að papparörin hafa ýmsa galla. Það eru eðlileg viðbrögð neytenda að lýsa óánægju sinni þegar þeim finnst papparörin ekki virka nógu vel. En kannski er horft á vandamálið útfrá of þröngu sjónarhorni. Að hverfa aftur til plaströranna þarf ekki að vera eina lausnina. Nýsköpunargeirinn og markaðurinn almennt hafa brugðist með sterkum hætti við breyttum reglum. Útum allt er verið að kalla eftir lausnum og svörin láta ekki á sér standa. 

 

Foreldrar glíma nú við að fá börnin sín til að klára drykkinn áður en papparörið er dottið í sundur.

Einnota lausnir

Eins og flestir hafa þegar áttað sig á er algengast að plaströrum sé skipt út fyrir papparör. En það er ekkert sem segir að þau papparör sem fyrst verða sett á markað séu þau sem munu verða ríkjandi á markaði þegar fram líða stundir. Sum papparör eru ræfilsleg á meðan önnur eru sterkbyggðari og þola betur vætu. Það er engin spurning að mikil gróska og metnaður er fyrir því að bæta eiginleika papparöranna. En það er líka hægt að hugsa út fyrir kassann, eða í þessu tilfelli rörið. Þegar eru dæmi um að rörum sé skipt út fyrir áfastan flipa sem hægt er að lyfta upp til að drekka. Mögulega munum við líka sjá stútkönnur í auknum mæli fyrir boozt og mjólkurhristinga. Það má í fyrstu hljóma skringilega en í raun eru margir vanir að drekka prótein hristinginn sinn úr stútkönnu fyrir fullorðna.

Margnota lausnir

En löggjöfinni er ekki bara ætlað að skipta út einnota fyrir einnota, heldur sem mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Hægt er að nýta tækifærið og endurskoða hvort ekki sé hægt að skipta út einnota lausnum fyrir margnota. Það er í raun glapræði að nýta okkar takmörkuðu auðlindir til þess að framleiða vörur sem við svo hendum nokkrum mínútum eftir notkun. Margir barir og einstaklingar hafa nú þegar fjárfest í margnota rörum, og slík rör eiga ekki í hættu á að grotna niður í pappamassa. Til eru handhæg veski fyrir margnota rör og hnífapör sem hægt er að stinga í rassvasann eða töskuna. Einnig er hægt að kaupa stútkönnu lok úr sílikoni sem hægt er að smeygja á glös af ýmsum stærðum og gerðum og nota aftur og aftur. Og hver veit, kannski verða komnar skilatunnur og skilagjald fyrir margnota stálrör í framtíðinni? 

Hægt er að nýta tækifærið og endurskoða hvort ekki sé hægt að skipta út einnota lausnum fyrir margnota.

Þarf að drekka með röri?

Það er líka hægt að líta á löggjöfina sem tækifæri til þess að staldra við og spyrja sig, þarf þetta? Svarið getur auðvitað verið bæði já, nei, og eitthvað þar á milli. Til dæmis þurfa sjúklingar sem eiga erfitt með að hreyfa sig eða nærast í einhverjum tilfellum einnota plaströr. Það verður áfram leyfilegt að nota plaströr í lækningaskyni.  

En stundum er svarið skýrt nei. Til dæmis getur maður spurt sig af hverju þarf endilega að drekka kokteila með plaströri þegar bjór, vín og annað áfengi er venjulega drukkið af glasbrún. Að drekka kokteil af glasbrún þarf ekki að þýða að við höldum aftur af sköpunargleðinni, heldur eru nú þegar dæmi um kokteila skreytta með náttúrulegum hlutum eins og appelsínuberki, bláberjum, blómum og greni.

Það er í raun glapræði að nýta okkar takmörkuðu auðlindir til þess að framleiða vörur sem við svo hendum nokkrum mínútum eftir notkun.

Rör lausn við loftslagsvandanum?

Í allri umræðu um plaströr megum við heldur ekki gleyma því hvaða vandamál er verið að leysa. Gagnrýnisraddir hafa til dæmis heyrst um að þetta sé frekar slök lausn við loftlagsvandanum, en þessari löggjöf var aldrei ætlað að leysa loftlagsvandann. Vissulega er það svo að tengsl eru á milli þess óhóflega magns einnota plasts sem framleitt er í dag og loftlagsáhrifa, en áhrif plasts eru umfangsmeiri og önnur en á loftslagið. Reglurnar sem tóku gildi í sumar eru því fyrst og fremst svar við gríðarlegri plastmengun í hafinu. Hér áður fyrr fóru börn í fjöru til að týna skeljar og kuðunga, en núna er allt eins líklegt að þau finni brot af gömlum hnífapörum, leifar af plastdiskum og plaströr.  

Plast innvortis í mönnum og dýrum

Nýju reglurnar sem tóku gildi í sumar banna ekki plast almennt, enda plast mjög nytsamlegt. Reglurnar taka í staðinn á því einnota plasti sem er líklegast til að verða að rusli út í náttúrunni. Oftast drekkum við úr röri þegar við erum á ferðinni og þar sem rörin eru létt fjúka þau auðveldlega burt úr ruslatunnum utan dyra. Ef plast endar í náttúrunni þá eyðist það ekki, heldur veldur skaða í lífríki sjávar um ókomin ár, til dæmis þegar dýr festast í plastrusli eða borða það.  

Plast í hafinu verður á endanum að örplasti sem við manneskjur getum fengið í okkur með neyslu drykkjarvatns og ýmissa matvæla sem getur haft hormónaraskandi áhrif. Í ljósi þessa er hægt að spyrja hvort það sé eðlileg krafa að vilja endilega fá að drekka mjólkurhristinginn sinn í 5 mín með plaströri ef kostnaðurinn er að hundruðum, þúsundum, eða tugþúsundum ára eftir að hristingurinn er búinn velkist plaströrið enn um í náttúrunni? Kannski væri nær í lagi að kalla eftir enn betri lausnum sem bæði virka vel og hlúa að náttúrunni. 

Plast í hafinu verður á endanum að örplasti sem við manneskjur getum fengið í okkur með neyslu drykkjarvatns og ýmissa matvæla sem getur haft hormónaraskandi áhrif. 

Ekki nógu langt gengið

Þó mörgum finnist of langt gengið með því að banna plaströr, þá eru enn aðrir sem finnst þetta langt í frá vera nóg. Það er vissulega svo að enn eru mörg vandamál tengd óhóflegri notkun á plasti sem nýju reglurnar taka ekki á. En einhversstaðar verður að byrja, og plaströrin eru bara toppurinn á plastfjallinu. Reglurnar sem hafa verið innleiddar og er verið að innleiða í íslensk lög ná mun lengra en plaströrin, þó að það sé sá hluti löggjafarinnar sem birtist neytendum hvað skýrast. Sem dæmi má nefna er verið að framlengja framleiðendaábyrgð í svo að framleiðendur plasts taki meiri ábyrgð og beri meiri kostnað af plastúrgangi.

Hér er hægt að lesa meira um hvað reglurnar fela í sér fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Þolinmæði í grátbroslegum aðstæðum

Þegar umfangsmiklar lagabreytingar eiga sér stað er eðlilegt að það taki ákveðin tíma fyrir bæði fyrirtæki og einstaklingar  að ná áttum. Til dæmis hrista margir hausinn þegar þeir sjá plaströr á einum stað en fá þau skilaboð á öðrum stað að þau hafi verið bönnuð. Er verið að brjóta lög? Nei, líklegast eru staðirnir bara að klára gamlar birgðir. Lögin eru skrifuð þannig að plaströrin munu  hverfa hægt og rólega. Það þýðir samt að á endanum verða þessar birgðir kláraðar, og þá verða plaströrin bönnuð. 

Fyrirtæki eru enn að átta sig á því hvaða lausnir standa til boða og hvernig þær virka. Auðvitað munu neytendur ekki sætta sig til lengdar við að vera með munninn fullan af pappamassa í staðinn fyrir kókómjólk, en með tíð og tíma er ekki ólíklegt að í kjölfar þessa breytinga munum við sjá nýskapandi lausnir á því hvernig best beri að drekka drykk. Á meðan getum við reynt að sýna þolinmæði í aðstæðum sem geta verið grátbroslegar.