Stök frétt

Gönguleiðin að Grænahrygg í Friðlandi að Fjallabaki hefur nú verið merkt með stikum. Verkefnið var umfangsmikið þar sem um 8 km krefjandi gönguleið er að ræða. Landverðir skipulögðu verkefnið og fengu liðsinni frá öflugum hópi björgunarsveitamanna frá Björgunarfélaginu Blöndu sem voru á hálendisvakt í Landmannalaugum. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar sáu um að koma stikunum niður í samstarfi við landverði.

Gönguleiðin hefst við veg F208 í nágrenni við Kýlingavatn þar sem vísir er að bílastæði. Frá bílastæðinu er gengið um Halldórsgil, upp á hæð þar sem leiðin liggur niður á áreyrar. Þaðan er svo gengið áfram upp á hæðina milli Sveinsgils og Svigagils. Eins og áður segir þá er leiðin krefjandi um 8 km löng aðra leið. Vaða þarf yfir á sem getur verið straumhörð ef fólk vill ganga alveg að hryggnum. Þá er mikilvægt að hafa meðferðis vaðskó. Svæðið er sannkölluð náttúruperla og er einstakt á heimsmælikvarða. Grænihryggur er blágræn líparítalda og er viðkvæm fyrir traðki. Því er mikilvægt að ekki sé gengið upp á hrygginn. Gönguleiðina er hægt að skoða í kortasjá Umhverfisstofnunar. 

Tilgangurinn með stikun gönguleiðarinnar er að bæta öryggi gesta og einnig til að vernda náttúruna. Mælst er til þess að fólk fylgi þessari stikuðu leið til að draga úr álagi á svæðinu. Þá segir einnig í sérreglum um svæðið að ef farið er í skipulagðar hópaferðir á svæðið og fjöldi fólks fer yfir 15 manns skuli haft samráð við landvörð. Hér má nálgast reglur sem gilda í friðlandinu.  

Göngum vel um náttúruna og stöndum vörð um hana saman.

Upplýsingar um gönguleiðina veita landverðir í Landmannalaugum, einnig í síma 822-4083 og í gegnum netfangið fjallabak.ranger@ust.is.

Landverðir skipulögðu verkefnið og fengu liðsinni frá öflugum hópi björgunarsveitamanna frá Björgunarfélaginu Blöndu sem voru á hálendisvakt í Landmannalaugum. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar sáu um að koma stikunum niður í samstarfi við landverði.