Stök frétt

Vandamál tengd ófrjósemi hafa aukist síðastliðna áratugi og áætlað er að tíðni ófrjósemi meðal para sé að meðaltali 10-15% á heimsvísu. Rannsóknir sýna að meðalfjöldi sæðisfruma hjá karlmönnum hefur lækkað um 50-60% frá árinu 1973 til 2011 í Evrópu, Norður Ameríku og Ástralíu. Vísindamenn telja að fjöldi sæðisfruma hjá karlmönnum muni nálgast núll um 2045 haldi þessi þróun áfram.

Innkirtlatruflandi efni víða

Ein af ástæðum aukinnar ófrjósemi er snerting okkar við innkirtlatruflandi efni, en slík efni finnast víða í okkar daglega umhverfi. Þau eru meðal annars notuð í plast, þvottaefni, málningu, snyrtivörur, lækningartæki, raftæki, textíl og fleira.  

Þekktustu innkirtlatruflandi efnin eru perflúoruð alkýlsúlfónöt (PFAS), bisfenól efnasambönd (t.d. BPA, BPS, BPF, o.fl.), þalöt, eldtefjandi efni sem innihalda halógena, díoxín, fjölklóruð bífenýl (PCB) og paraben.  

Notkun á mörgum þessara efna er nú þegar ýmist bönnuð eða háð takmörkunum að einhverju leiti í lögum og reglugerðum sem gilda hér á landi. 

Skaðleg innkirtlatruflandi efni finnast t.d. í plasti, málningu, ilmvörum, raftækjum, textíl og fleiru. Mynd: Unsplash  

Áhrif á hormónastarfsemi líkamans

Innkirtlatruflandi efni geta haft skelfilegar afleiðingar fyrir heilsu manna og valdið margvíslegum truflunum á hormónastarfsemi líkamans:

  • Óeðlilegum kynþroska
  • Óreglulegum tíðahring
  • Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PCOS)
  • Legslímuflakki (endómetríósu)
  • Fósturmissi
  • Lágri fæðingarþyngd barna
  • Minnkun á lengd getnaðarlims 

10 milljónir skaðlegra efna á ári

Því miður hafa flest innkirtlatruflandi efni þá eiginleika að brotna mjög hægt eða alls ekki niður, sem verður til þess að þau safnast upp í náttúrunni. Þá eru sífellt ný efni að koma á markað, en talið er að um 10 milljónir efna bætist við á hverju ári að meðaltali. 

Rannsóknir á eiginleikum og váhrifum nýrra efna taka nokkurn tíma að gefa áreiðanlegar niðurstöður, sem leiðir til þess að stjórnvöld ná ekki að setja reglur til að takmarka eða banna framleiðslu og notkun þeirra nógu tímalega.

Fjöldi nýrra skaðlegra efna koma á markað á hverju ári og stjórnvöld ná oft ekki að banna notkun þeirra strax. Mynd: Unsplash  

Efnalæsi mikilvægt fyrir heilsuna

Til þess að draga úr neikvæðum áhrifum efna á heilsuna er mjög mikilvægt að temja sér efnalæsi sem felst í því að fylgjast með umræðunni, leita betri valkosta sem neytandi og almennt að draga úr neyslu. 

Ein leið til þess að forðast innkirtlatruflandi efni er að velja vörur merktar Svansmerkinu eða Evrópublómin og þá helst án ilmefna. 

Einnig er góð þumalputtaregla að lofta hýbýli vel út, t.d. tvisvar á dag og þurrka af eða ryksuga vikulega til að draga úr styrk hættulegra efna í innilofti.

 

Nánari upplýsingar um:

 

Heimildir: