Stök frétt

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í gær auglýsingu um stækkun fólkvangs í Garðahrauni efra og neðra, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum.  
 
Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar voru friðlýst sem fólkvangur í apríl 2014. Fólkvangurinn er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er talið sérstætt á heimsvísu.  Stækkun fólkvangsins nær annars vegar til norðvestur hluta Garðahrauns efra og votlendis í Vatnsmýri hins vegar. Vatnsmýri er gróskumikil flæðimýri neðan Vífilsstaða og er þar fjölskrúðugt fuglalíf. Innan fólkvangsins finnst plöntutegundin ferlaufungur sem er friðlýstur og er metin sem tegund í yfirvofandi hættu. Einnig vaxa þar blátoppa og munkahetta sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

Markmið friðlýsingarinnar er m.a. að tryggja aðgengi almennings að náttúru svæðisins til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í þéttbýli sem og að að vernda jarðmyndanir sem eru fágætar á heimsvísu, náttúrulegt gróðurfar og dýralíf.  

Undirbúningur stækkunar fólkvangsins var unninn af samstarfshópi sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Minjastofnunar Íslands og Oddfellowa. 

Nánar um fólkvanginn hér