Stök frétt

Ný aðgerðaáætlun gegn matarsóun hefur verið lögð fram af umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún samanstendur af 24 aðgerðum sem snúa að allri virðiskeðju matvæla, frá frumframleiðslu til neytenda. Markmið aðgerðanna er að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030. 

„Með því að minnka matarsóun drögum við úr losun gróðurhúsalofttegunda, myndun úrgangs og ágangi á takmarkaðar auðlindir jarðar. Við aukum fæðuöryggi, styðjum við líffræðilega fjölbreytni og spörum peninga. Þessi barátta margborgar sig.” segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs og almennings

Framkvæmd 15 aðgerða er á ábyrgð stjórnvalda og 9 aðgerða á ábyrgð atvinnulífsins. Aðgerðunum má skipta í fjóra flokka:  

  1. Atvinnulífið og aukið samstarf 
  2. Rannsóknir og nýsköpun 
  3. Menntun og fræðsla 
  4. Hagrænir hvatar og regluverk 

Áætlunin er í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og stefnu um úrgangsforvarnir. Hún gerir ráð fyrir samstilltu átaki samfélagsins alls; atvinnulífs, almennings og stjórnvalda.

Á meðal aðgerða eru að: 

  • Að auka samstarf atvinnulífs og stjórnvalda.
  • Að koma á fót reglulegum mælingum á matarsóun.
  • Að innleiða á hagræna hvata.
  • Að auka menntun og fræðsla. 
  • Að styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróunarvinnu sem dregur úr matarsóun.

Ábyrgð Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun kemur að fjölda aðgerða í samstarfi við hagaðila. Stofnunin ber ábyrgð á að koma á reglubundnum mælingum á matarsóun og að rannsaka orsakir matarsóunnar á heimilum. Auk þess ber Umhverfisstofnun ábyrgð á upplýsingamiðlun um matarsóun og matarsóunarverkefni og að nýta fjölbreyttar aðferðir til þess að veita almenningi stuðning við að draga úr matarsóun.  

Starfshópur um áætlunina

Aðgerðaáætlunin byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var árið 2019 til að móta tillögur gegn matarsóun. Í starfshópnum sátu auk fulltrúa Umhverfisstofnunar, fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka. 

Hvað getum við gert?

Á heimasíðu Saman gegn sóun má finna ýmis ráð til þess að koma í veg fyrir matarsóun.