Í Friðlandi að Fjallabaki er akstur utan vega að hausti árlegt vandamál. Fyrst á haustin festist snjórinn aðallega í vegum en svæðin meðfram þeim haldast snjólaus. Ferðamenn á illa útbúnum bílum freistast þá til að aka út fyrir vegina. Vegalandvarsla er ekki starfrækt á veturna.
Í flestum tilvikum er ekið utan vega á ógrónum svæðum. Einstaka sinnum er ekið um mjög viðkvæm gróin svæði sem erfitt er að lagfæra. Aksturinn skilur eftir sig varanlegar skemmdir á náttúrunni að Fjallabaki.
Á haustin eru sett upp skilti sem benda á að svæðið sé einungis fært breyttum jeppum. Fjölmargir láta samt á það reyna að aka í Landmannalaugar á litlum jepplingum og jafnvel á sumardekkjum.
Akstur utan vega getur skilið eftir sig varanlegar skemmdir á náttúrunni. Mynd: Hákon Ásgeirsson.
Undanfarin sumur hafa Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður átt samstarf um landvörslu á Fjallabakssvæðinu. Landverðirnir sinna vegalandvörslu á helstu stofnvegum sem liggja inn á Fjallabak. Þeir fræða og upplýsa ferðamenn um hvernig aka skuli um hálendið og minna á að akstur utan vega er bannaður.
Samstarfið hefur gengið vonum framar og dregið úr akstri utan vega og náttúruskemmdum yfir sumartímann. Mikilvægt er að efla þetta samstarfsverkefni og halda úti landvörslu á svæðinu inn í veturinn. Það mun efla náttúruvernd og auka öryggi ferðamanna sem ætla sér að heimsækja svæðið á illa útbúnum bílum.
Fjöldi ferðamanna heimsækir Friðland að Fjallabaki allt árið um í kring enda Landmannalaugar vinsæll áfangastaður.
Skilti benda á að svæðið sé einungis fært stórum jeppum en margir aka samt á illa útbúnum bílum. Mynd: Hákon Ásgeirsson.
Nánari upplýsingar um: