Stök frétt

Veiðitímabil rjúpu verður frá 1. - 30. nóvember í ár.

Heimilt er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en eins og síðustu ár er veiðibann á miðvikudögum og fimmtudögum.

Sú breyting er þó gerð samkvæmt reglugerð  1217/2021 að ekki verður heimilt að hefja leit eða veiði á rjúpu fyrr en kl. 12.00 þá daga sem heimilt er að veiða og skal veiði eingöngu standa á meðan birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Eru veiðimenn hvattir til að takmarka veiðar í ljósi bágrar stöðu rjúpnastofnsins.

Í mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins fyrir árið 2021 kemur m.a. fram að stofninn, sem stendur höllum fæti, telji um 248.000 rjúpur. Náttúrufræðistofnun leggur mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og afli verði ekki umfram um 9% af veiðistofni (20.000 fuglar). Að framansögðu leggur Umhverfisstofnun þunga áherslu á það að hver veiðimaður felli ekki fleiri en 4 rjúpur á komandi tímabili.

Frekar má lesa um málið á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.