Stök frétt

Fyrstu viku COP26, aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, er að ljúka. Fulltrúar Umhverfisstofnunar hafa m.a. tekið þátt í samráðsfundum um tæknilegar útfærslur á losunarbókhaldi og spennandi umræðum um nýjar tæknilausnir. Stærstu tíðindi vikunnar eru að ríkin þurfa að taka á sig auknar skuldbindingar til að halda hlýnun jarðar innan 2°C. 

Tvísýnt með markmið Parísarsáttmálans  

Á blaðamannafundi Evrópusambandsins fimmtudaginn 4. nóvember kom fram að uppfærð landsframlög sem kynnt voru fyrir upphaf þingsins færðu heimsbyggðina á feril sem leiddi til 2.7°C hlýnun jarðar. Markmið Parísarsáttmálans eru að halda hlýnun innan 2°C og helst innan 1.5°C.  

Fleiri ríki þurfa því að taka á sig auknar skuldbindingar í loftslagsmálum til að ná markmiðum Parísarsáttmálans.

Uppfært landsframlag Íslands mun fylgja markmiðum Evrópusambandsins um 55% samdrátt í stað 40%, fyrir árið 2030, miðað við losun ársins 2005. 

Niðurstöður loftslagsbókhalds Íslands eru birtar í Landsskýrslu um gróðurhúsalofttegundir. Skýrslurnar eru á vef Umhverfisstofnunar en þar má einnig finna útdrátt og yfirlitsmyndir um helstu efnistök.  

Parísarsáttmálinn var samþykktur árið 2015 á 21. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP21). Ákveðið var að á fimm ára fresti yrðu landsframlög endurskoðuð. Landsframlög eru þær ákvarðanir ríkja um hve miklum samdrætti gróðurhúsalofttegunda þau hyggjast ná á komandi árum. COP26 er því nokkuð umfangsmikið þing.  

Mikilvægur samráðsvettvangur

Hlutverk fulltrúa Umhverfisstofnunar á COP26 er að sækja fundi sem snúa að tæknilegum útfærslum losunarbókhalds ríkja, með sérstaka áherslu á gagnsæi og áreiðanleika. 

Á bókhaldsfundunum er rætt hvernig megi tryggja að losunarbókhald hvers ríkis sé gagnsætt, heildstætt og samanburðarhæft milli ríkja. Það er til að mynda gert með því að ákvarða hvaða gögn þurfa að koma fram og í hvaða formi þegar losunarbókhaldi er skilað til Loftslagssamningsins.  

Markmið Umhverfisstofnunar á COP26 er einnig að stuðla að framþróun Parísarreglubókarinnar sem liggur til grundvallar losunarbókhalds ríkja. Reynsla og geta aðildarríkja Parísarsamningsins til þess að halda bókahald um  losun er misjöfn. Samningurinn gerir því ráð fyrir sveigjanleika og að ákveðin ríki fá undanþágur. Það fer að einhverju leyti gegn sjónarmiðum um gagnsæi og áreiðanleika í upplýsingagjöf.  

Á þinginu hafa myndast ómetanleg tækifæri fyrir fulltrúa Umhverfisstofnunar að mynda tengsl og taka þátt í umræðum um samspil nýrra tæknilausna í loftslagsmálum og viðmiðunarreglna um losunarbókhald. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir Ísland þar sem töluverð framþróun hefur verið í nýsköpunarverkefnum í loftslagsmálum.

COP26 er því ekki aðeins vettvangur þjóðarleiðtoga til koma saman og setja línurnar í loftslagsmálum heldur einnig mikilvægur vinnufundur opinberra starfsmanna um tæknilegar útfærslur og utan umhald á losunarbókhaldi. 

Umhverfisstofnun í fyrsta sinn á þinginu

Fulltrúar Umhverfisstofnunar á þinginu eru þau Nicole Simone Keller og Rafn Helgason. Þau starfa bæði í teymi losunarbókhalds sem tekur saman losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.  

Nicole Simone Keller og Rafn Helgason

Mynd: Nicole Simone Keller og Rafn Helgason, sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun, á COP26.

Þetta er í fyrsta sinn sem Umhverfisstofnun sendir fulltrúa sína á aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og eru þau hluti af sendinefnd Íslands.  

Ætlunin var að senda starfsmenn á þingið árið 2020 en þá var þinginu frestað um eitt ár vegna heimsfaraldurs. Nú eru viðhafðar miklar ráðstafanir til að stemma stigu við smitum og er ráðstefnugestum gert að taka sjálfspróf á hverjum morgni. 

Í formlegri sendinefnd Íslands eru 26 aðilar. Auk tveggja fulltrúa frá Umhverfisstofnun eru í henni fulltrúar frá ráðuneytum, Veðurstofunni, Landgræðslunni, Loftslagsráði, Orkustofn og Ungum umhverfissinnum. 

Fulltrúar frá félagasamtökum og fyrirtækjum sækja einnig viðburði sem tengjast loftslagsþinginu beint eða óbeint. Samkvæmt heimasíðu Umhverfis- og auðlindaráðuneytis er heildarfjöldi þátttakanda frá Íslandi um 60 talsins. 

Um COP26

26. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26)  er haldið í Glasgow dagana 31.október - 12. nóvember. Yfir 40 þúsund manns taka þátt í þinginu og tengdum viðburðum.  

 

Nánar: 

Losunarbókhald Íslands

Heimasíða COP26