Stök frétt

Mynd: Best nýtta heimilistækið er kaffikvörn frá því í kringum 1890.

Starfsmannafélag og Umhverfisráð Umhverfisstofnunarinnar stóðu fyrir jólaskiptimörkuðum og samkeppni um best nýtta heimilistækið í tilefni evrópsku nýtnivikunnar.

Jólaskiptimarkaðir

Jólaskiptimarkaðir voru settir upp á starfsstöðvum Umhverfisstofnunar í Reykjavík og á Akureyri. Starfsfólk var hvatt til þess að kíkja í skápana hjá sér og kanna hvort þar leyndist eitthvað sem gæti nýst öðrum betur.

Á skiptimörkuðunum mátti til dæmis finna jólaföt á börn og fullorðna, spariskó, leikföng, jólaskraut, bækur, vefnaðarvörur og margt fleira. Á hverjum degi bættist eitthvað nýtt við. Viðburðirnir heppnuðust vel og verða án efa árlegir.

Jólaskiptimarkaður starfsfólks Umhverfisstofnunar í Reykjavík.

Mynd: Jólaskiptimarkaður starfsfólks Umhverfisstofnunar í Reykjavík.

Best nýtta heimilistækið

Einnig var efnt var til samkeppni um best nýtta heimilistækið. Leikreglurnar voru einfaldar. Starfsfólk var hvatt til þess að: 

  1. Taka mynd af elsta eða best nýtta heimilistækinu sínu.
  2. Segja sögu tækisins.
  3. Deila myndinni á innri vef stofnunarinnar. 

Vinningin um best nýtta heimilistækið hlaut kaffikvörn frá því í kringum 1890 sem enn þjónar tilgangi sínum vel.  

Við val á sigurtækinu var horft til notagildis, rafmagnsnotkunar, útlits og umhverfiverndar en það er ljóst að kaffikvörnin skorar hátt í öllum flokkum enda hafa ófáir kaffibollarnir orðið til fyrir tilstilli hennar.  

Það bárust margar skemmtilegar tillögur. Til dæmis um hundrað ára gamalt straujárn, gamalt útvarp sem hefur fengið nýtt líf með stafrænum spilara, samlokugrill, hrærivélar og handþeytara frá fyrri hluta 20. aldar og nýrri tæki sem hafa nýst vel.  

Mynd: Það bárust fjölmargar tilnefningar um best nýtta heimilistækið.

Nýtnivikan 

Evrópska nýtnivikan stóð yfir frá 20.- 28. nóvember. Markmið nýtnivikunnar er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.  

Þemanýtnivikunnar í ár var hringrásarsamfélög og er þar vísað til þeirra hvetjandi áhrifa sem að samfélög geta haft til þess að auðvelda fólki að innleiða hjá sér umhverfisvænar hegðunarbreytingar.  

Saman gegn sóun stóðu fyrir fjölbreyttri og fræðandi dagskrá í tengslum við nýtnivikuna. Nánar á samangegnsoun.is

Innra Umhverfisstarf 

Að viðburðunum stóðu starfsmannafélag og Umhverfisráð Umhverfisstofnunar. Umhverfisráðið er skipað fulltrúum af öllum sviðum stofnunarinnar og hefur umsjón með framkvæmd Umhverfis- og loftslagsstefnu hennar. Á meðal verkefna er að skipuleggja þátttöku starfsfólks í viðburðum eins og Nýtniviku, Hjólað í vinnuna og Plastlausum september.