Stök frétt

Mynd: Mat Napo - Unsplash

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi Ísteka ehf.  fyrir starfsstöðina á Eirhöfða 13 og 15 í Reykjavík.
Starfsleyfistillaga var auglýst opinberlega á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 28. febrúar til og með 28. mars 2022. Starfsemin sem um ræðir er nátengd starfsemi sama rekstraraðila að Grensásvegi 8, Reykjavík og felur starfsleyfið ekki í sér útvíkkun á þeirri starfsemi. Tekið er sérstaklega fram í starfsleyfinu að umfang starfseminnar að Eirhöfða skal rúmast innan þeirra heimilda er koma fram í starfsleyfi rekstraraðila að Grensásvegi 8. Talið var nauðsynlegt að aðgreina starfsemina og gefa út tvö starfsleyfi í stað eins vegna ákvæða aðalskipulags Reykjavíkurborgar. Starfsleyfisskyld starfsemi er víkjandi á Eirhöfða þegar litið er til lengri tíma og er ekki hægt að veita starfsleyfi þar nema að hámarki til 6 ára samkvæmt áliti borgarinnar. Starfsleyfi Ísteka ehf. á Grensásvegi gildir hins vegar til ársins 2038.

Engar umsagnir bárust á auglýsingatíma. Starfsleyfið er gefið út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit og er til komið vegna lyfjaframleiðslu. Greinargerð vegna útgáfunnar er í fylgiskjali starfsleyfisins sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 og þar er meðal annars fjallað ítarlega um málsmeðferð vegna þessarar ákvörðunar.

Starfsleyfið gildir til 8. apríl 2028. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu.

Starfsleyfi