Uppgerðar losunarheimildir flugrekenda jukust um 42% milli 2020 og 2021, sem skýrist að langmestu leyti af auknum flugsamgöngum þar sem heimsfaraldur af völdum COVID-19 var í rénun. Losunin er þó enn talsvert minni en hún var 2019.
Einn nýr íslenskur flugrekandi hóf starfsemi árið 2021 (Fly Play) en auk þess féll annar flugrekandi (Papier-Mettler), sem hefur ekki fallið undir kerfið áður, undir kerfið árið 2021. Seinni flugrekandinn er erlendur en Ísland er samt sem áður umsjónarríki þess flugrekanda.
Árið 2021 var losunin 267.043 tonn af CO2 en var 187.687 tonn af CO2 árið 2020. Hér er þó ekki um alla losun flugrekenda að ræða, heldur eingöngu þá losun sem á sér stað innan EES svæðisins og til Bretlands. Þar sem t.d. Ameríkuflug er ekki innan gildissviðs kerfisins er losun vegna þess flugs ekki með í þessum tölum.
Losunin í iðnaði jókst á milli ára, eða um 3,6%, úr 1.780.064 tonnum af CO2 ígildum árið 2020 í 1.843.588 tonn af CO2 ígildum árið 2021. Helsta ástæða þessarar aukningar er að PCC Bakki jók við framleiðslu sína árið 2021. Einum færri rekstraraðili gerði upp heimildir sínar fyrir 2021 miðað við árið áður, þar sem Fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar hf., Fáskrúðsfirði er undanskilin ETS kerfinu frá og með 2021 skv. 14. gr. a laga nr. 70/2012 um loftlagsmál. Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði sem gerðu upp heimildir sínar 2021 voru því sex talsins.
* Verne Data Center losar aðeins 0,002% af losun frá staðbundnum iðnaði í ETS-kerfinu á Íslandi