Stök frétt

Nú hafa kröfurnar fyrir Svansvottuð hótel og aðra gististaði verið uppfærðar og þær hertar enn meira. Samkvæmt uppfærðum kröfum er meðal annars lögð enn meiri áhersla á að draga úr loftslagsáhrifum í rekstri og að velja umhverfisvænni matvæli. 

Í dag má finna yfir 400 Svansvottuð hótel og gististaði á Norðurlöndunum. Þessi fyrirtæki hafa nú þegar tekið stór skref til að draga úr orku- og vatnsnotkun, útiloka óþarfar og óæskilegar efnavörur á sama tíma sem þau hafa lagt áherslu á að auka framboð af umhverfisvænni matvælum og draga úr óflokkuðum úrgangi.

En Svanurinn lætur ekki þar við sitja þar sem hluti af loforði merkisins til neytenda er að Svansvottuð þjónusta sé meðal þeirra umhverfisvænstu á markaði. Til að geta uppfyllt þetta loforð eru viðmið Svansins reglulega skoðuð og uppfærð í samræmi við nýjustu þekkingu og þróun á markaðnum.

Við endurskoðun og uppfærslu viðmiða er sett mikil áhersla á loftslagsmálin annars vegar og hringrásarhagkerfið hins vegar. Tvö málefni sem tengjast mjög sterkt og styðja við hvort annað. Svanurinn er og vill vera leiðarvísir fyrir fyrirtæki til að innleiða raunverulegar aðgerðir sem draga úr losun og bæta nýtingu auðlindanna okkar. Í nýju viðmiðunum fyrir hótel erum við að vinna með þessa þætti meðal annars með að gera skýrar kröfur um að minnka matarsóun og að banna ýmsar einnota vörur.“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi.


Sjá meira um málið á heimasíðu Svansins