Stök frétt

Kraftur í Norrænu samstarfi – reynslu og þekkingu miðlað.

Í síðustu viku komu saman á Íslandi sérfræðingar frá Norðurlöndunum á sviði losunarbókhalds til þess að stilla saman strengi. Fulltrúar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíðþjóðar voru meðal gesta en þessi hópur hefur hist regulega síðan árið 2018. Markmið fundanna hefur verið að dýpka þekkingu hópsins á sértækum verkefnum sem losunarbókhaldssérfræðingar standa frammi fyrir s.s. skuldbindingar þjóða vegna loftslagsmála og regluverk þar að lútandi ásamt uppfærðum reikniaðferðum sem styrkja áreiðanleika bókhaldsins.

Þessir samráðsfundir sérfræðinga á sviði losunarbókhalds eru mikilvægir fyrir ýmsar sakir. Fundirnir ýta undir framþróun og aukin gæði bókhalds um losun gróðurhúsalofttegunda. Sérfræðingarnir sjálfir njóta góðs af kynningum á verkefnum annarra þjóða sem og þeim áskorunum sem framundan eru, sem oft eru áþekkar þeim sem við á Íslandi stöndum frammi fyrir. Dæmi um slíkar áskoranir eru uppfærsla á reikniaðferðum, samskipti og verkaskipting milli mismunandi stofnananna og ráðuneyta ásamt nýjum og bættum leiðum til þess að miðla þessum mikilvægu tölum og upplýsingum.

14 fulltrúar frá hinum Norðurlöndunum, ásamt 15 fulltrúum sem starfa hérlendis voru á staðfundi og 45 fulltrúar tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Fundirnir tóku til allra helstu málefnasviða losunarbókhaldsins en mikill fjöldi erinda snéri að orkumálum og landnotkun – sem eru sérstaklega mikilvægir geirar á Íslandi.

Fulltrúi Svíþjóðar kynnti einkar áhugaverða skýrslu sem snýr að því hvernig hægt er að reikna út neysludrifið kolefnisspor þjóða. Slíkur útreikningur byggir ekki einungis á því að reikna út losun ríkja sem á sér stað innan landamæra þeirra heldur tekur einnig til þeirrar losunar sem verður til framleiðslu á vöru á öðru landi þ.e.a.s þegar varan er innflutt til Svíþjóðar. Þessi aðferð veitir auknar upplýsingar um umfang losunar og gefur neytendum tól og tæki til ákvarðanatöku sem byggir á heildstæðara mati á losunar gróðurhúsalofttegunda vegna neyslu þeirra, jafnvel þótt losunin vegna þess sem þau kaupa frá öðrum ríkjum tilheyri formlega losunarbókhaldi annarra ríkja.

Vegna COVID-19 gafst hópnum ekki tækifæri til þess að hittast augliti til auglitis í þau tvö ár sem faraldurinn stóð, það var því kærkomið að geta hist. Fundurinn fór þó fram bæði í gegnum fjarfundarbúnað og sem staðfundur. Að fundarhöldum loknum var farið í vettvangsferð í Heillisheiðavirkjun þar sem starfsemi virkjunarinnar sem og kolefnisföngunarverkefni virkjunarinnar var kynnt.