Stök frétt

Veiðitímabilið á grágæs og heiðagæs hefst laugardaginn 20. ágúst. Grágæs hefur fækkað á Íslandi og veiðimenn því beðnir að gæta hófs við veiðar. 

Heiðagæsastofninn stendur sem fyrr mjög sterkur og taldi hann um hálfa milljón fugla skv. talningum ársins 2019. Íslenski grágæsastofninn náði hins vegar hámarki árið 2011 með 112.000 fuglum. Síðan þá hefur grágæs fækkað og bentu talningar ársins 2020 til þess stofninn væri kominn niður í 60.000 fugla. Árið 2018 voru einungis taldar rúmlega 58.000 grágæsir í nóvembertalningum. 

Ekki er alveg ljóst hvað veldur þessari fækkun á grágæs, en til að varpa ljósi á málið hefur Ísland tekið höndum saman við nágranna okkar á Bretlandseyjum með aukinni vöktun og nánara samstarfi. Á síðasta ári náðist samkomulag um merkingarátak sem mun vonandi veita frekari upplýsingar. Í ljósi þessa vil Umhverfisstofnun eindregið hvetja veiðimenn til að gæta hófs við grágæsaveiðar og þannig tryggja viðkomu stofnsins til framtíðar. 

Fuglaflensa 

Umhverfisstofnun bendir á síðu Matvælastofnunar  þar sem finna má upplýsingar um fuglaflensu. Þar má finna leiðbeiningar um hvað skal gera ef villtur fugl finnst dauður eða veikur og grunur er um fuglaflensu. 

Veiðimenn með veiðihunda og aðrir hundaeigendur eru hvattir til að hafa hunda sína í taumi svo þeir komist síður í snertingu við dauða fugla.