Stök frétt

Mynd: Johannes Andersson - Unsplash

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunar jókst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 3% milli áranna 2020 og 2021 þegar er horft til losunar án landnotkunar og skógræktar (LULUCF). Ef einungis er litið til losunar á beinni ábyrgð Íslands nemur aukningin 2 prósentum milli ára. Losunin var rétt undir úthlutuðum heimildum fyrir árið 20211.

Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam losun á Íslandi árið 2021 4.672 þús. tonnum af CO2-ígildum. Bráðabirgðatölurnar ná ekki yfir losun og kolefnisbindingu sem tengjast landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF) 2.


Mynd 1: Losun gróðurhúsalofttegunda (kt CO2-ígildi) á Íslandi (án landnotkunar, skógræktar og alþjóðasamgangna)

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum eru meginbreytingar í losun milli 2020 og 2021 eftirfarandi.

Losun frá:

  • Vegasamgöngum jókst um 4%, sem helgast líklega af aukningu ferðamanna eftir COVID-lægð árið 2020 og sést helst í aukinni losun frá hópferða- og vörubifreiðum. 
  • Fiskiskipum jókst um 13%, meðal annars vegna loðnuveiði ársins 2021.
  • Kælimiðlum (F-gösum) dróst saman um 15% vegna minni innflutnings á kælimiðlum.
  • Landbúnaði dróst saman um 1,3%, aðallega vegna fækkunar sauðfjár á Íslandi.
  • Málmframleiðslu (EU ETS) jókst um 4% vegna aukinnar framleiðslu rekstraraðila.
  • Alþjóðaflugi jókst um 58%, en þessi losun fellur þó að mestu leyti utan skuldbindinga í loftslagsmálum, nema flug innan Evrópu sem fellur undir Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). 

Tölur yfir urðun og jarðgerð árið 2021 lágu ekki fyrir þegar bráðabirgðagögnum var skilað. Í heildartölum fyrir losun Íslands árið 2021 er notast við tölur ársins á undan fyrir þessa flokka. 

Mynd: Tim Foster - Unsplash
Mynd: Unsplash

Vegasamgöngur, fiskiskip og iðragerjun stærstu losunarþættirnir á beinni ábyrgð Íslands

Þegar litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands (heildarlosun án LULUCF og ETS) jókst hún um 2% milli áranna 2020-2021 og nam 2.807 kt CO2-ígildum árið 2021. Það ár voru stærstu einstöku losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands vegasamgöngur (31%), fiskiskip (20%) og iðragerjun búfjár (11%). 

Rafbílavæðing mögulega farin að skila árangri 

Heildarfjöldi ekinna kílómetra fólksbíla3  hefur verið að aukast síðustu ár á meðan losun þeirra hefur verið að dragast saman. Þessi þróun bendir til þess að rafbílavæðingin sé mögulega byrjuð að skila árangri.

 

Mynd 2  Samanburður á losun frá fólksbílum, fjölda ekinna kílómetra og fjölda rafmagnsbíla fyrir árin 2018-2021. Athuga skal að vinstri ásinn sýnir losun frá fólksbílum, hægri ásinn fjölda ekinna kílómetra og grænu stöplarnir sýna fjölda rafmagnsbíla í umferð ár hvert.

Losun á beinni ábyrgð Íslands rétt undir úthlutuðum heimildum

Með Parísarsáttmálanum hefur Ísland áður skuldbundið sig til að ná 29% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030, miðað við losun ársins 2005. Þess ber að geta að markmið um 29% samdrátt sem fellur undir beina ábyrgð Íslands er tilkomið vegna sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og ESB um að ná 40% samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990. Það markmið hefur verið hækkað í 55% og endurskoðun markmiða einstakra hlutaðeigandi ríkja stendur nú yfir. Einnig hefur núverandi ríkisstjórn sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við 2005.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum er losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2021 12% minni en hún var árið 2005. Úthlutaðar losunarheimildir frá Evrópusambandinu fyrir árið 2021 voru 2876. Út frá bráðabirgðaútreikningunum var losunin árið 2021 2807 kt CO2-ígildi. Það lítur því út fyrir að losun Íslands hafi verið 2% lægri en hún hefði mátt vera samkvæmt skuldbindingum okkar við ESB. Þess ber þó að gæta að áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins gætti enn árið 2021. 


***sá hluti eldsneytisbruna sem fellur ekki undir beina ábyrgð Íslands  er losun vegna eldsneytisbruna hjá fyrirtækjum sem eru hluti af viðskiptakerfi ESB og CO2 losun frá innanlandsflugihlluti
****sá hluti iðnaðar sem fellur ekki undir beina ábyrgð Íslands er CO2 og PFC losun fyrirtækja sem eru hluti af viðskiptakerfi ESB  

Mynd 3: Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands 2005-2021 (kt CO2-ígildi).

Bráðabirgðaniðurstöður hafa gefið góða mynd af losun Íslands

Mikilvægt er að taka fram að tölurnar sem um ræðir eru bráðabirgðaniðurstöður sem Íslandi ber að skila til Evrópusambandsins í júlí ár hvert. Þær geta tekið breytingum áður en endanleg skil til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verða þann 15. apríl 2023. 

Niðurstöður gefa engu að síður vísbendingu um þróun losunar á Íslandi og sýna að áhrif kórónuveirufaraldursins hafi líklega enn gætt í losun ársins 2021, þó ekki jafn mikið og árið 2020. 
Samkvæmt samanburði á bráðabirgðaniðurstöðum og lokaskilum á síðasta ári skeikaði bráðabirgðaniðurstöðunum aðeins um 0,5% og því má áætla að þessar tölur sem birtar eru hér gefi góða mynd af losun Íslands árið 2021.

Vonir bundnar við mótvægisaðgerðir

Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða á grundvelli aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem búist er við að skili árangri á næstu árum. Fleiri aðgerðir eru í mótun, m.a. í sjávarútvegi og byggingaiðnaði sem munu skipta miklu máli við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum 
Ítarlegar upplýsingar um losun Íslands, ásamt bráðabirgðatölum, eru að finna á vef Umhverfisstofnunar undir Bráðabirgðatölur.

 1 Fyrir losun á beinni ábyrgð Íslands.
 2 Losun og binding frá landi sem ekki telst til landbúnaðargeirans.
 3 https://www.samgongustofa.is/umferd/tolfraedi/onnur-tolfraedi/