Stök frétt

Mynd: Í plasti eru oft efni sem geta valdi skaðlegum áhrifum á heilsuna / Unsplash

Plastlaus september er í fullum gangi og margir sem reyna að draga úr notkun sinni á plasti. Plast er ekki bara mikill mengunarvaldur heldur getur það einnig innihaldið efni sem eru óæskileg fyrir heilsuna. 

Vandamálið við plast og efnin sem í því leynast

Margar gerðir plasts innihalda kokteil efna sem blandað er saman til að ná fram ákveðnum eiginleikum, t.a.m. lit, mýkt, viðnámi gegn UV-ljósi, viðnámi gegn íkveikju eða loga o.s.frv. Þessi íblöndunarefni hafa mörg hver skaðleg áhrif á heilsu okkar og umhverfið.

Vöndum valið á hlutunum sem við kaupum

Það er ekki skylda framleiðenda að birta innihaldsefni í vörum sem við notum í okkar daglega lífi, t.d. vatnsbrúsa, matarílát, húsgögn, eldhúsáhöld og raftæki. Hinn almenni neytandi hefur þannig ekki beinan aðgang að upplýsingum um efnainnihald varanna.

Við getum verið örugg um að forðast efnin með því að kaupa vörur merktar áreiðanlegum umhverfismerkjum eins og Svansmerkinu eða Evrópublóminu.

Einnig getum við dregið úr plasti í umhverfi okkar með því að velja frekar hluti úr gleri, ryðfríu stáli, gegnheilum við, keramik og ull svo dæmi séu nefnd.

Hvað fleira getum við gert?

Það er margt annað hægt að gera til þess að lágmarka útsetningu sína fyrir óæskilegum efnum í plasti. Hér eru nokkur dæmi:

  • Minnka neyslu, kaupa minna.
  • Lofta vel um og þvo vörur áður en þær eru teknar í notkun.
  • Varast að hita hluti úr plasti, ekki síst í örbylgjuofni.
  • Forðast að nota brotin eða skemmd plastílát.
  • Draga úr notkun leikfanga úr mjúku plasti sérstaklega þeirra sem voru framleidd fyrir 2007. Gömul leikföng sem fólk vill ekki losa sig við er hægt að nota eingöngu við sérstök tilefni eða á tyllidögum.
  • Veljum plastvörur sem eru merktar án allra bisfenóla, ekki einungis bisfenóls A (BPA). Oft er búið að skipta yfir í bisfenól S, F eða M í staðinn.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.
  • Vera gagnrýnin á vörur sem keyptar eru utan EES/ESB svæðisins, efnalöggjöfin innan svæðisins er sú strangasta í heiminum.

Meira um efnin í plasti og hvers vegna við viljum sniðganga þau.

 

Tengt efni: