Stök frétt

Börn leika sér gjarnan á gólfinu þar sem efnaleifar safnast saman. / Mynd: Unsplash

Börn eru mun viðkvæmari en fullorðnir  fyrir efnum í umhverfinu. Þau hafa þynnri húð; anda, borða og drekka meira miðað við líkamsþyngd; leika sér á gólfinu þar sem efnaleifar safnast saman í ryki og skoða heiminn með því að smakka á hlutum og koma við með höndunum. 

Börn eru enn að þroskast og ferlar í líkama þeirra til þess að brjóta niður og aðskilja skaðleg efni úr umhverfinu eru ekki fullþroskaðir. Þess vegna eigum við að beita öllum tiltækum ráðum til þess að lágmarka snertingu barna við skaðleg efni.

Til þess þurfum við meðal annars að leggja áherslu á að:

  • Fylgjast með umræðu um áhrif hættulegra efna, ef til vill þekkja nokkra algenga varasama efnahópa.
  • Leyfa börnum ekki að leika sér með hluti sem kunna að innihalda óæskileg efni, t.d.;  lykla, gamla síma, frauðplastumbúðir og ódýra skartgripi.
  • Vanda valið á leikföngum og nota leikföng eldri en frá árinu 2007 aðeins á tyllidögum.
  • Tryggja gott inniloft á heimilinu – lofta út daglega og ryksuga og þurrka af a.m.k. vikulega.
  • Velja vandaðar notaðar vörur frekar en nýjar.
  • Velja áreiðanlegar umhverfisvottaðar vörur.
  • Velja vörur án ilmefna.
  • Þvo nýjan textíl (föt og mjúk leikföng) áður en hann er tekinn í notkun.
  • Draga úr neyslu eins og hægt er.

Í opnum fyrirlestri um efnin í umhverfi barna munu sérfræðingarnir okkar hjá Umhverfisstofnun fjalla nánar um í hvaða aðstæðum eru mestar líkur  á því að börn verði fyrir útsetningu mengunarefna í umhverfinu. Skoðað verður sérstaklega hvaða aðstæður og vörur ætti að varast. Tekin verða dæmi um leikföng, mataráhöld, hreinsiefni, hreinlætisvörur, byggingarefni, húsgögn og fleira.

Fjallað verður um hvernig hægt er að gera umhverfi barna heilsusamlegra með einföldum lausnum, upplýstu vöruvali og réttri notkun vara.

Fyrirlesturinn fer fram í beinu streymi þriðjudaginn 22. nóvember kl. 12:15

Nánar um fyrirlesturinn

Viðburðurinn á Facebook