Stök frétt

Mynd: Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis og Nicole Keller, teymisstjóri í teymi losunarbókhalds.

Við stígum út úr flugvélinni seint um nótt og tökum rútuna inn í þennan furðulega sumarleyfisbæ sem ber heitið Sharm El Sheikh í Egyptalandi. Tilgangur ferðarinnar er að taka þátt í COP27, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, fyrir hönd Umhverfisstofnunar.  

Hingað streyma nú fulltrúar allra þjóða heims með það fyrir augum að reyna að þokast nær hverri annarri, að semja um skuldbindingar á sanngjarnan hátt og fyrir alla muni að stöðva æ hraðari loftslagsbreytingar.  

Loftslagsmál snúast líka um jafnrétti 

Við streymum inn á ráðstefnusvæðið ásamt tugþúsundum öðrum samningsaðilum og ráðstefnugestum. Við sem þarna erum saman komin erum þverskurður mannkyns. Fulltrúar frumbyggja og ýmissa eyríkja í Kyrrahafinu eru áberandi, klædd sínum litfögru og fjaðurskreyttu þjóðbúningum. Þau reyna að vekja sem mesta athygli á erfiðri stöðu sinna ríkja.  Þar sem hækkandi sjávarmál og tíðari fellibyljir skapa öngþveiti og innviðir eru takmarkaðir. Í stórum hlutum heims snúast loftslagsmál ekki síst um að standa vörð um jafnrétti og mannréttindi. Þegar samfélög verða fyrir raski þá eru það jaðarsettir hópar sem verða fyrir barðinu. 

Mynd: Samningahópur fagnar eftir sáttum eftir langar viðræður. 

Samræmt losunarbókhald grundvallaratriði 

Við Umhverfisstofnunarkonur sitjum á samningafundum, m.a. um sameiginlegt og gagnsætt losunarbókhald. Þegar löndin semja um samdrátt í losun og skuldbinda ríkisstjórnir sínar til að grípa til aðgerða og aðlögunar að loftslagsbreytingum þá er eins gott að þær skuldbindingar grundvallist í samanburðarhæfu og samræmdu bókhaldi sem allar þjóðir geta sameinast um. Við styðjum líka við í öðrum samningarviðræðum og samningahópurinn í heild er vinnusamur og ósérhlífinn. 

Þróunarlöndin kalla eftir stuðningi

Á samningafundunum sitja fulltrúar landanna í stórum fundarsölum, allir við sama borð, allir með jafna háa rödd. Löndin raða sér í fylkingar sem stýrast af svipuðum væntingum og forsendum. Það sem kemur okkur mest á óvart er hve mikið ber á milli á meðan samningaviðræður standa yfir. Sum lönd berjast fyrir því að hitastig jarðar hækki ekki umfram 1,5 gráðu frá iðnbyltingu á meðan önnur berjast fyrir því að fá að nota allt það jarðefnaeldsneyti sem þjóðin á þar til það er á þrotum. Þróunarlöndin berjast fyrir stuðningi frá efnameiri þjóðum til þess að takast á við tjón af völdum loftlagsbreytinga. Enda hafi þær staðið að mestu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í rúmlega hundrað ár. 

Tíminn er naumur 

Eftir því sem fundinum miðar fram þá eru nokkrir hlutir sem verða skýrari og skýrari í huga okkar. Við höfum ekki efni á að bíða eftir því að allir gangi fullkomlega í takt.  

Á þessum COP-fundi voru samningar stirðir og samningamenn þjóða stilltu sér upp í blokkir sem tóku sérstöðu andspænis hvor annarri með mismunandi hagsmuni í farteskinu. 

Það eru margir sem telja að niðurstaða fundarins hafi ekki verið nægilega metnaðargjörn og stórstíga. Því er sérstaklega mikilvægt að láta ekki niðurstöður fundarins takmarka metnaðarstig aðgerða heldur róa öllum árum að því að draga úr losun um leið og unnið er að mótvægisaðgerðum loftslagsbreytinga.  

Mynd: Hliðið inn á ráðstefnusvæði COP27 í Sharm El Sheikh í Egyptalandi.

Samtal er enn þá besta verkfærið 

Það er deginum ljósara að COP fundirnir eru mikilvægir sem aldrei fyrr.  

Á hverju ári heyrist gagnrýni á fundina, ýmist vegna allra flugferðanna sem þarf til að ferja fundargesti á staðinn eða vegna þess að mönnum finnst fundirnir skila litlu og óttast aðgerðarleysi í kjölfarið. 

Eftir að hafa orðið vitni að flóknum samningarviðræðum á COP27 þá virðist það hreint kraftaverk að Parísarsamningurinn hafi nokkru sinni verið undirritaður yfir höfuð. Hvað þá Glasgow Pact eða loforð um bótasjóð fyrir töp og tjón sem bættist við á nýafstöðnu COP27. En þetta tókst samt allt!  

Þrátt fyrir að COP sé ýmsum annmörkum háð og þjóðir heims langt frá því að vera alltaf sammála þá er þetta besta verkfærið sem við höfum til að taka á loftslagsmálunum í sameiningu. Daginn sem enginn nennir lengur að mæta á COP verður dagurinn sem mannkynið verður búið að gefast upp! Gleðjumst því á meðan öll ríki heims senda sína fulltrúa á staðinn með umboð til samninga í farteskinu.

Ísland getur gert meira í alþjóðlegri samvinnu

Þegar flugvélin tók á loft frá flugvellinum í Sharm og við snerum heim norður á bóginn þá var okkur efst í huga að loftslagsmál eru alþjóðleg. Við erum ekki með okkar eigið loftslag sem við getum verndað eins okkar liðs. Við eigum það til að gleyma því í umræðu um skuldbindingar Íslands að verkefnið er og verður alltaf alþjóðlegt. 

Við, eins og allar aðrar þjóðir, þurfum að standa við það sem við höfum lofað og tekið að okkur í þessari alheimsrimmu. En okkar framlag ætti að ná lengra en svo. Ísland getur og ætti að gera meira í alþjóðlegri samvinnu um samdrátt losunar. Deila sinni þekkingu og tæknikunnáttu og styðja við afmörkuð verkefni erlendis sem geta skilað miklu fyrir lítinn tilkostnað. 

Heimurinn er lítill og mannkynið stendur allt frammi fyrir sömu ógninni - af tíðari flóðum, harðari stormum og erfiðari þurrkum. Þegar maður gengur um á COP og sér fólk alls staðar að úr heiminum, eins konar smækkuð mynd af mannkyninu, þá fyllist maður lotningu yfir fegurð fjölbreytileikans og finnur fyrir mikilli frændsemi við allt þetta fólk sem er að reyna að finna lausnir á akkúrat því sama og við hér á Fróni.    

 

Tengt efni: