Stök frétt

Mynd: Unsplash

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt kynningarmyndband um notkun gagnagáttar stofnunarinnar til skila á gögnum um magn og meðhöndlun úrgangs skv. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Kynningin er viðbót við ítarlegar leiðbeiningar stofnunarinnar um skil úrgangsgagna í gegnum gagnagátt stofnunarinnar. Er þetta liður í framkvæmd aðgerðar 21: Bætt úrgangstölfræði (bls. 103) í stefnu ráðherra Í átt að hringrásarhagkerfi. Þar kemur fram í öðrum lið að 2) Gerðar verða leiðbeiningar fyrir rekstraraðila sem skrá úrgang í kerfið um bestu mögulegu aðferðafræði við skráningu við söfnun úrgangs og um notkun rafrænna kerfa og haldnir árlegir upplýsingafundir um upprunaskráningu og skil á gögnum. Lesa nánar um framkvæmd aðgerðar 21.

Mikil þróun er á upplýsingakerfi úrgangstölfræði hjá Umhverfisstofnun. Haustið 2022 hóf stofnunin að vinna með verktökum að úrbótum til að meðal annars skoða og innleiða rauntímaskil rekstraraðila á úrgangsgögnum. Markmiðið er að hægt sé að safna gögnum í hámarks upplausn. Samhliða því er verið að skoða hvernig hægt er að fá skil frá fleiri aðilum í virðiskeðju úrgangs, í stað þess að safna einungis gögnum frá lokameðhöndlunaraðilum. Innan verkefnisins eru svo einnig verkefni sem snúa að skilum og gögnum frá opinberum aðilum, uppsetning á gagnagrunn fyrir spilliefni o.s.frv. 
Samhliða því að vinna í bættum gæðum og flæði gagna er einnig unnið að því að setja á laggirnar heimasíðuna urgangur.is þar sem gögn verða aðgengileg í gegnum mælaborð (partur af þriðja lið í aðgerð 21). 

Umhverfisstofnun mun hefja vinnu við greiningu á endurnotkun á Íslandi. Þá verður kortlagning og greining á þeim aðilum sem annars vegar endurnota efni sem annars hefði orðið að úrgangi og þeirra sem meðhöndla úrgang á þann hátt að hann hættir að vera úrgangur (undirbúningur fyrir endurnotkun). Stefna Umhverfisstofnunar er að fá tölfræði endurnotkunar inn á sama mælaborð og úrgangstölfræði.
Umhverfisstofnun hefur einnig hafið rannsókn um umfang matarsóunar árið 2022.

Stöðugt samráð hefur verið við Sambands íslenskra sveitarfélaga í gegnum úrgangstölfræðihóp Umhverfisstofnunar og Sambandsins sem hefur verið í gangi síðan 2020. 

Tengt efni: