Stök frétt

Rúmlega helmingi neytenda finnst erfitt að átta sig á hvaða vörur eru sannarlega umhverfisvænar.

Lokaðu augunum, ímyndaðu þér að þú gangir inní verslun sem þú heimsækir reglulega. Hvað er það sem grípur augað? Hvaða vöru teygirðu þig eftir? Kaupirðu alltaf sömu vörurnar? Kaupirðu alltaf ódýrustu vöruna? Velurðu gæði fram yfir kostnað? 

Á hverjum degi tökum við ótal ákvarðanir, en af hverju stýrast þær? Erum við föst í viðjum vanans eða erum við spennusækin og leitum ítrekað á ný mið? Við erum jú eins ólík og við erum mörg og erfitt getur verið að rata um þá óreiðu upplýsinga sem berast okkur úr öllum áttum, daglegu tali, kaffistofunni, fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og svo mætti lengi telja. 

Hvað getur auðveldað okkur valið og hverju getum við treyst? 

Almenningi þykir í auknum mæli mikilvægara að geta treyst þeim yfirlýsingum sem fyrirtæki senda frá sér um umhverfislegt ágæti. Þetta styður nýleg neytendakönnun Svansins á Norðurlöndunum og sýnir einnig að neytendur telja að sjö af hverjum tíu fyrirtækjum ýki yfirlýsingar um hversu umhverfisvænar þeirra vörur séu. Rúmlega helmingi neytenda finnst erfitt að átta sig á hvaða vörur eru sannarlega umhverfisvænar. Íslenskir neytendur eru meðvitaðir um hættuna af grænþvotti og hafa litla þolinmæði fyrir því að vörur eða þjónusta séu markaðssettar undir fölsku eða innihaldslitlu grænu flaggi. Aðeins 18% neytenda á Norðurlöndunum treystir einhliða yfirlýsingum fyrirtækja eða merkingum um umhverfiságæti sem fyrirtækin búa sjálf til. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart því öll viljum við gera vel og þekking almennings er smátt og smátt að aukast á mikilvægi þess að vanda til verka í umhverfismálum. Traust til opinberra umhverfismerkja eins og Svansins eykst á sama tíma enda liggur að baki vottuninni áreiðanlegt vottunarferli byggt á faglega sértækum viðmiðum. 

Ákvarðanir fortíðar mótuðu samtímann

Fyrir rúmum áratug hófst mikil bylting á íslenskum markaði þegar saman fór eldmóður einstakra fyrirtækjaeigenda og aukin eftirspurn opinberra aðila eftir vottaðri þjónustu. Frumkvöðlar innan prentsmiðja og ræstingafyrirtækja ruddu brautina með því sækjast eftir Svansvottun á sama tíma og sveitarfélög og stofnanir nýttu innkaupakraft sinn til að skapa eftirspurn. Af stað rúllaði bolti sem var samfélaginu öllu til góða þar sem smátt og smátt jókst úrval vottaðra vara og innlendum þjónustuaðilum. Almenningur hafði úr meiru að velja, því þótt það sé áskorun að standast kröfur Svansins þá auðveldar hann neytandanum að velja vöru sem hefur minni áhrif á umhverfið og heilsuna. Þessar ákvarðanir, teknar af framsýnum stjórnendum fyrirtækja og innkaupastjórum opinberra aðila fyrir mörgum árum, mótaði með skýrum hætti þann samtíma, þann markað sem við búum við í dag.

Í baksýnisspeglinum og beint af augum

Íslenskir neytendur þekkja Svaninn betur og nota hann meira en almennt gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum en betur má en duga skal.

Nú er lag! Hvaða ákvarðanir eru teknar í kringum þig í dag? Þegar byggðar eru vottaðar byggingar þá standa þær áratugum eða árhundruðum saman og húsnæði er því skýrt dæmi um ákvörðun sem er tekin í samtímanum sem mótar framtíðina. Hvaða aðrar ákvarðanir tökum við á hverjum degi sem gætu gert okkur að betri forverum? Hvaða ákvarðanir tökum við í dag fyrst og fremst með hag barnabarna okkar í huga? 

Niðurstöður neytendakönnunar Svansins verður kynnt nánar á viðburði sem Svanurinn stendur fyrir í Hörpu 15. febrúar undir heitinu Fortíðin er búin, framtíðin er snúin og öll eru velkomin að taka þátt. 

Svanurinn einfaldar valið! 

Tengt efni: