Stök frétt

Í nóvember sl. stóð Umhverfisstofnun fyrir vinnustofu um leiðir til að koma öllu rusli sem kemur upp með veiðarfærum í land. Yfirskrift vinnustofunnar var: Hafið tekur ekki lengur við.

Þátttakendur í vinnustofunni voru aðilar sem hafa hlutverki að gegna við úrgangshirðingu í hafi, móttöku á úrganginum og förgun. Á vinnustofunni kom fram mikill vilji hjá öllum til þess að gera vel, enda hagur allra að stuðla að heilbrigðara umhverfi sjávar. 

Fjölbreytt umræðuefni

Eftir að hafa hlýtt á erindi sem fjölluðu um stöðu mála og möguleika til að ná betri árangri var þátttakendum skipt í hópa. Hóparnir ræddu tækifæri, áhyggjuefni og næstu skref sem þarf að framkvæma til þess að allir sem veiði rusl sjái sér hag af því að skila því í land.

Helstu umræðuefnin í hópunum voru: Aðstaða til flokkunar og móttöku; Áhugi, vitundarvakning og viðhorfsbreyting; Efnahagslegir hvatar - Kostnaður - Ábati; Forvarnir - Fræðsla – Samstarf; Hvert fer úrgangurinn? - Skýra þarf úrgangsferlið; Lög og reglugerðir; Magn og staðsetning rusls; Uppruni ruslsins í hafinu. 

Ítarleg samantekt

Hægt er að lesa samantektarskýrslu um vinnustofuna: Veitt rusl í hafi - leiðir til að koma því í land. Skýrslan verður notuð til að móta næstu skref.

Ný tilskipun um móttökuaðstöðu í höfnum

Vinnan mun einnig styðja við væntanlega innleiðingu á tilskipun nr. 883/2019. Tilskipunin gerir kröfu um að magn af veiddum úrgangi sem skilað er í höfnum sé gefið upp og tryggir þannig að innviðir verði til staðar til að uppfylla þær skyldur.

Vinnustofan er hluti af norrænu verkefni sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni og er framhald af verkefni sem lauk árið 2021 með útgáfu skýrslunnar: Þegar hagaðilar safna rusli úr sjónum - Hvernig hægt er að fjarlægja hindranir í norrænum smásamfélögum.

Myndir: Umhverfisstofnun stóð fyrir vinnustofu um leiðir til að koma öllu rusli sem kemur upp með veiðarfærum í land. Þátttakendur voru aðilar sem hafa hlutverki að gegna við úrgangshirðingu í hafi, móttöku á úrganginum og förgun.