Stök frétt

Mynd: Matt Hardy - Unsplash

79. fundur umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (MEPC 79) var haldinn dagana 12.-16. desember 2022. Á fundinum voru meðal annars samþykktar eftirtaldar breytingar á viðaukum við MARPOL samninginn:

 • Breytingar á viðaukum I, II, IV, V og VI við MARPOL samninginn varðandi móttökustöðvar fyrir úrgang frá skipum innan hafsvæðis Norðurskautssvæðisins (Arctic Waters). Með breytingunum verður heimilt að gera svæðisbundnar áætlanir fyrir móttökuaðstöðu í höfnum sem eru innan þess svæðis sem fellur undir gildissvið Pólkóðans til að uppfylla kröfur samkvæmt viðaukum við MARPOL. Það svæði sem um ræðir er utan við íslenska mengunarlögsögu. Samhliða breytingum á viðaukum við MARPOL samninginn voru samþykktar breytingar á leiðbeiningum IMO um gerð svæðisbundinna áætlana fyrir móttökuaðstöðu í höfnum, 2012 Guidelines for the Development of a Regional Facilities Plan. 
  Breytingarnar munu taka gildi þann 1. maí 2024.
 • Breyting á viðauka V við MARPOL samninginn varðandi sorpdagbók. Samkvæmt núgildandi reglu er skylt að hafa sorpdagbók um borð í sérhverju skipi sem er 400 brúttótonn eða stærra og í sérhverju skipi sem er skráð til að flytja 15 manns eða fleiri. Með breytingunni verður einnig skylt að hafa sorpdagbók um borð í skipum sem eru 100 til 400 brúttótonn að stærð.
  Breytingin mun taka gildi 1. maí 2024. 
 • Breyting á viðauka VI við MARPOL samninginn sem lýtur að því að Miðjarðarhafið verði að ECA svæði. Með breytingunni verður Miðjarðarhafið að sérhafsvæði eða svokölluðu ECA svæði (Emission Control Area) hvað varðar losun brennisteinsoxíða og sóts. Óheimilt verður að nota skipaeldsneyti með meira en 0,1 % brennisteinsinnihald, en þó verður skipum heimilt að nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun (emission abatement methods).
  Breytingin á viðauka VI tekur gildi þann 1. maí 2024 en breyttar kröfur til skipaeldsneytis koma til framkvæmda þann 1. maí 2025. 
 • Breyting á viðauka VI varðandi upplýsingar á afhendingarseðli fyrir eldsneyti (BDN). Breyting verður á viðbæti V í viðauka VI við MARPOL samninginn þess efnis að skylt verður  að hafa upplýsingar um blossamark eldsneytis (flashpoint) á afhendingarseðli fyrir eldsneyti eða yfirlýsingu um að blossamarkið hafi verið mælt við 70°C eða hærra hitastig.
  Breytingin tekur gildi þann 1. maí 2024. 
 • Breyting á viðauka VI við MARPOL samninginn hvað varðar skil á upplýsingum í gagnagrunn IMO um eldsneytisnotkun skipa. Breyting verður á viðbæti IX í viðauka VI við MARPOL saminginn er varðar skil á upplýsingum í gagnagrunninn um koltvísýringsstig (CII) og orkunýtnistuðul fyrir skip sem eru í rekstri (EEXI). Breytingin mun taka gildi 1. maí 2024 en stjórnvöld eru hvött til að beita ákvæðunum frá og með 1. janúar 2024 til að tryggja að gögn fyrir árið 2023 varðandi koltvísýringsstig berist til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
 • Breyting á viðauka I við MARPOL samninginn er varðar form fyrir alþjóðlega olíumengunarvarnaskírteinið (IOPP skírteini). Breyting verður í titli liðar 5 á formi B í viðbæti við IOPP skírteinið. 

Nánari upplýsingar um fund umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og helstu mál er þar voru til umfjöllunar er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.