Stök frétt

Svið náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun leggur meðal annars áherslu á fræðslu í starfsemi sinni á náttúruverndarsvæðum. Liður í að auka þátt fræðslu er þátttaka í fjölbreyttu fræðslustarfi, móttaka í gestastofum og á náttúruverndarsvæðum auk þess að landverðir hafa heimsótt skóla og frætt nemendur.

Eitt verkefnanna undanfarna mánuði er GetUp! verkefnið; fjölþjóðlegt Erasmus+ verkefni sem snýst um að útbúa námsefni fyrir nemendur á unglingastigi um rekstur náttúruverndarsvæða. Útkoman er að líta dagsins ljós í formi tölvuleikjs þar sem spilað er sem þjóðgarðsvörður sem ber ábyrgð á náttúruvernd og rekstri náttúruverndarsvæðis. Hægt er að velja um að stjórna fjórum þjóðgörðum eða náttúruverndarsvæðum, það eru Cento Laghi á Ítalíu, Little Carpathians í Slóvakíu og Sierra de Espadá á Spáni. Síðast en ekki síst er það framlag Íslands í verkefninu Snæfellsjökulsþjóðgarður. 

Kennslumarkmið leiksins er, auk þess að fræða um rekstur náttúruverndarsvæða, að efla rökhugsun og stærðfræði, styrkja enskukunnáttu og almenn umhverfisfræðsla svo eitthvað sé nefnt. Leikurinn verður notaður til kennslu í skólum þar sem nemendur munu spila undir handleiðslu kennara og fylgir leiknum handbók fyrir kennara til þess að gera kennsluna markvissari. 

Þátttaka í verkefninu hefur verið skemmtileg og fræðandi. Starfsfólk stofnunarinnar hefur kynnst og lært um umhverfi og rekstur erlendra náttúruverndarsvæða auk þess að komast í kynni við kennara,  menntasérfræðinga og tölvuleikjahönnuði frá Ítalíu, Póllandi, Slóvakíu og Spáni.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið nánar er bent á heimasíðu verkefnisins https://getup.erasmus.site/is/ og jafnframt er velkomið að hafa samband og fá nánari upplýsingar. Vinsamlegast hafið samband við Davíð Hansson david.hansson@umhverfisstofnun.is eða í gegnum skiptiborð stofnunarinnar 591 2000.