Stök frétt


Umhverfisstofnun hefur bætt við aðstöðu sína fyrir starfsfólk í Bankanum á Selfossi en ríkið samdi nýverið um aðstöðu í húsinu fyrir starfsfólk sitt. Með þessu heldur Umhverfisstofnun áfram verkefni undanfarinna tíu ára að bjóða upp á starfsaðstöðu vítt og breitt um landið.

Stofnunin hefur auglýst langflest störf óháð staðsetningu og vinnur að því að efla starfsstöðvar sínar. Nú bætist við valmöguleikana. Bankinn á Selfossi býður upp á fjölbreytta skrifstofuaðstöðu þar sem starfsfólk velur sér vinnuaðstöðu við hæfi eftir verkefnum dagsins og skilar auðu að kvöldi. Þannig bætist ekki einungis í staðsetningar um landið heldur er einnig áhugavert fyrir starfsfólkið að prófa sveigjanlegt vinnuumhverfi.

Við sjáum Bankann sem snjalla viðbót við starfsemina sem gefur kærkomna vídd í fjölbreytta flóru og hlökkum til að fylgjast með hvernig hún þróast.